Sanna Magdalena um fátækt á Íslandi – Ýmislegt var komið í reynslubankann við 10 ára aldurinn

13872848_10208681768155935_460485340832207473_nRaddir þeirra sem hafa upplifað á eigin skinni sára fátækt þurfa að heyrast. Þess vegna er mikilvægt að miðlar komi pistlum eins og Sönnu áfram.

Sanna Magdalena birti átakanlegan pistil á Facebook-síðu sinni síðastliðið föstudagskvöld. Með honum vekur hún athygli á því hvað það þýðir að vera virkilega fátækur á Íslandi.

Klósettpappír lúxusvara

Að standa með mömmu sinni í röð fyrir utan Mæðrastyrksnefnd á miðvikudögum klukkan 5 til að fá mat.

Skeina sér með dagblöðum (af því að klósettpappír er lúxusvara you know, maður kaupir frekar mat heldur en klósettpappír).

Vita að ef mamma manns átti enn pening eftir 18. hvers mánaðar að þá hafi nú einhver reikningur ekki verið greiddur í upphafi mánaðar og vona svo innilega að það gerist ekkert slæmt í kjölfarið.

Fríka pínu út við að heyra klinkhljóð í dag því það minnir mann á þegar mamma manns var að telja restina af peningnum sem átti að duga út mánuðinn, aldeilis var maður heppinn að finna gullpening!

Eiga bara 29 krónur, skima búðina og sjá að þið hafið efni á Polo mynturúllu (gúgglaði það, ein mynta er 6 hitaeiningar, þannig hey einhver orka!).

Hjóla í nístingskulda og frosti á sumardekkjum með flöskur, 7 kr. stykkið, leysa út og fá 198 krónur, þá gat maður keypt tvö Milka stykki sem þá kostuðu 98 krónur í Bónus (þið vitið sykur booztar mann smá upp þegar maður hefur ekki borðað lengi). Ég meina afhverju að taka strætó þegar maður getur hjólað (cheaper).

Taldi niður dagana til mánaðarmóta

Vera stolt af sér að hafa reddað því að líma mynd á skólaverkefni með límbandi til þess eins að vera rökkuð niður af kennaranum sem skammar mann fyrir að nota ekki lím, sem hefði verið fínna.

„Allir eiga lím heima hjá sér,“ svaraði kennarinn þegar ég sagði á einlægu nótunum að við ættum nú ekkert lím heima (fun fact, límband var ódýrara en lím og nei það eru bara ekkert allir sem eiga lím, límstifti eru dýr you know).

Þetta á auðvitað einnig við um munaðarvörur eins og góð skriffæri þar með talið boxy strokleður, ég meina hver hefur efni á almennilegum blýöntum og strokleðri fyrir barnið sitt í skólann?

Mæta með lítið sem ekkert nesti í skólann. Eiga drasl sundgleraugu og þurfa alltaf að stoppa reglulega í skólasundi til að tæma vatnið úr gleraugunum til að sjá hvert maður er að fara (ég meina, speedo gleraugu, hver kaupir það, rándýrt). Djúpa laugin í Sundhöllinni er nú pínu intimidating fyrir lítinn krakka, hvað þá ef hann sér ekkert.

Hlakka til að fara í sínu fyrstu klippingu; hver borgar fyrir að láta klippa hárið sitt?  Sjá mömmu sína rétt svo á morgnanna og um helgar því hún er alltaf að vinna. Að hætta vinna svona mikið = meiri tími með barninu þínu = minni peningur, halló dilemma?!?!

Telja niður dagana þangað til 1. kemur 23. hljómar alveg eins og mánuðurinn sé að verða búinn en trust me, þá er samt alveg heil vika eftir, sem er leeeeeengi að líða.

Margnota gildi uppþvottalögs

Vera svo flökurt að þegar þú færð loksins mat að þá er erfitt að borða hann. Vonast til þess að launin hennar mömmu dugi út mánuðinn, þó að maður viti að það sé ansi fjarstæðukennt. Komast að margnotu gldi uppþvottalögs, voða fín sturtusápa og fínasta sjampó. Vona að þessi listi hjá Féló fari nú að styttast svo maður fái ódýrari íbúð.

…Vera áhugasöm um að skoða nýjasta leigulistann með mömmu sinni, ég meina hvaða 8 ára krakki veit hvað leigulistinn er?! Double tjékka á mömmu þinni hvort hún sé nú viss um að geta keypt 3000 króna úlpu handa þér þegar hún segir æ þetta er allt í lagi ég er á nýjum lyfjum sem láta mig eiginlega missa matarlyst, er að borða miklu minna, þ.a.l. kaupa minni mat (sennilega eitt af þeim lyfjum er snéru að andlegum málefnum, líkt og kvíða). Kvíði + ótti að geta ekki útvegað barninu þínu það sem það þarf = kvíðaköst.

Mamma manns sem kaupir 3 svarta boli í pakka á 500 og eitthvað krónur og notaði þá þangað til það komu göt á þá. Mamma sem gerði aldrei neitt fyrir sjálfa sig heldur setti mig alltaf í fyrsta sæti. Mamman sem er með snilldar radar á að finna ódýrt dót.

Koma síðan að henni fyrir alls ekkert svo mörgum árum rænulausri liggjandi á gólfinu því hún hafði ekki borðað svo lengi og vildi ekki valda mér áhyggjum.

Geta aldrei æft dans eða eitthvað eins og hinir krakkarnir.

Verst var að vera svöng

En VERST AF ÖLLU AÐ VERA SVANGUR! Sennilega þess vegna sem ég verð eiginlega aldrei södd í dag þótt ég raði í mig og hoarda alltaf mat út í búð líkt og ég sé að undirbúa mig fyrir apocalypse.

Eins mikið og ég elska að kaupa mat þá fær maður alltaf þessa ónotatilfinningu í magann og sting í hjartað þegar maður verslar fyrir meira en tíu þúsund og maður fær eiginlega samviskubit fyrir að vera að eyða pening (steikt right!? Að kaupa mat….).

Þegar mamma fyllti út blöð á skrifstofum og skrifaði ekkert í reitina sími, farsími og email, ég meina hver hefur efni á slíkum lúxusvörum líkt og síma og tölvu þegar maður er fátækur, döh.

Að þurfa að labba í tíkallasíma til að hringja mann veikan í skólann. Hugsa á milljón hvernig þú eigir að redda þér 800 kalli þegar vinkona þín biður þig um að koma með sér í bíó.

Langa svo í dótið úti í búð sem var alls ekki dýrt sem mamma hefði keypt ef hún ætti pening.

Eiga erfitt með að borða pasta enn þann dag í dag, því það var ALLTAF í MATINN, þegar það var matur btw.

Finna kúl dót heima hjá sér sem þú vilt samt alveg eiga lengur, til að gefa bekkjarsystur í afmælisgjöf.

Að fara í mat til bekkjarsystur sinnar og líta yfir alla fínu dískana og glerglösin og hugsa bara vóóó þau eru rík.

Koma heim og það er allt dimmt því það er búið að skrúfa fyrir rafmagnið (sem gerist víst þegar maður á ekki pening til að borga reikninga).

Peningurinn var notaður í allra helstu nauðsynjar og þess vegna er svo sárt að heyra „ohh ég á ekki pening“ frá fólki sem maður heldur að eigi nú alveg eitthvað brauð að bíta.

Þegar frasinn „ég á engann pening“ hjá mér þýðir að búið er að núlla alla reikninga (eða jafnvel mínusa þá), telja allar einu krónurnar, leita í öllum jökkum og úlpuvösum, töskum og snúa sófapullum við í leit að klinki sem gæti hafa dottið upp fyrir.

Upprunaleg slóð pistilsins, hér.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

Færsla: Sanna Magdalena um fátækt á Íslandi – Ýmislegt var komið í reynslubankann við 10 ára aldurinn