Það kemur fyrir að fólk sendi mér vinabreiðni á fésbókinni, stundum mér til mikilli furðu. Oft þarf ég lengi að velta vöngum yfir því hver viðkomandi er og af og til verð ég furðulostin yfir beiðinni.
Mér þykir yfirleitt mjög gaman þegar gamlir félagar senda mér vinabreiðni. Það rifjar upp góðar minningar frá fólki sem hefur verið og er mér kært. Þetta tengist stundum vinnunni eða einstaklingum úr fjölskyldunni sem ég hef ekki verið í sambandi við lengi.
En hvað er það sem veldur mér pirringi þegar vinabeiðnir eru sendar ?
Jú, þegar fólk er til dæmis með börnin sín bæði á opnunarmyndinni sinni og forsíðumyndinni eða mynd af hlut, viðburði eða einhverju öðru sem tengist ekki einstaklingnum. Oft er það þannig að ég kannast eingöngu við viðkomandi á mynd (ég tala nú ekki um ef þetta eru gamlir skólafélagar). Ég hef stundum ekki hugmynd um hver tengslin eru þegar ég sé bara nafnið á viðkomandi og eftir stend ég klórandi mér í hausnum með spurningamerki út í loftið sem segir “Hver er þetta eiginlega?”.
Þú hugsar kannski með þér, afhverju sendir þú ekki tölvupóst og spyrð hver viðkomandi er?
Afhverju bætir þú ekki viðkomandi inn sem vin og ferð í gegnum myndir og ef þú vilt ekki vera vinur aðilans, eyðir þú honum bara út ?
Jú af því að mér þykir kurteisi að kynna sig þegar maður heilsar einhverjum að fyrra bragði í gegnum tölvuna. Ég byrja a.m.k. alltaf tölvupóstana mína á því að kynna mig áður en ég ber upp erindi við einhvern sem ég þekki ekki.
Það gefur manni þá allavega tækifæri til að rifja upp hver viðkomandi er, eða hreinlega skrifa til baka og biðja um nánari upplýsingar.
Ég veit ekki hvað ég er með marga á bið í að samþykkja sem “vini” því ég er að bíða eftir að viðkomandi komi með myndir sem láta allt pússlið smella saman og ég átta mig á hver viðkomandi er. Því miður er ég ekki nafnglögg og nöfn eru það fyrsta sem ég gleymi í tengslum við fólk, oft 5 mínútum eftir að mér er komið í kynni við einhvern (ég veit, dónalegt, en ég er að reyna að bæta þetta, þyrfti að læra einhverja tækni!). En fólk er jú misjafnt sumir mannglöggir á meðan aðrir eru nafnaglöggir svo eru sumir sem muna bæði!
Er ekki bara lag að við kynnum okkur á fésbókinni þegar við sendum vinabeiðni? Það væri góður siður.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.