Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig við getum ætlast til þess að börnin okkar hlusti á okkur af því að við erum með meiri reynslu og vitum betur – þegar við sem foreldrar hlustum ekki á fólk sem hefur meiri reynslu og veit betur.
Ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum er að undanfarið hef ég átt í heitum samræðum við foreldra um áfengisneyslu unglinga og hef gegnum þær komist að því að foreldrar eru á svo miklum villigötum varðandi áfengisneyslu unglinga sinna að það er í rauninni ekki hægt að lýsa því.
Til dæmis þarf alvarlega að fara endurhugsa slagorðið “Stöðvum unglingadrykkju”. Það þarf augljóslega að stöðva foreldra í að kaupa áfengi fyrir börnin sín og senda þau svo niður í bæ á “djammið”, allt niður í tíunda bekk ef ekki yngra, þrátt fyrir að fagfólk mæli með því að unglingar neyti ekki áfengis.
Nú hugsar þú ef til vill “ofboðslega er ég heppin að eiga ungling sem er ekki farinn að drekka”.
En ég spyr þá: Hver á þá öll þessi börn sem fara drukkin á menntaskólaböll? Eru íslenskir unglingar meira og minna munaðarlausir ? Íslenskir unglingar drekka áfengi! Ef þú trúir því ekki mæli ég með að mæta á næsta menntaskólaball og sjá það með eigin augum.
Stundum er ekki svigrúm að gera málamiðlanir í uppeldi og Bellu finnst unglingadrykkja ALDREI réttlætanleg.
Staldraðu aðeins við, rifjaðu upp hvað þér fannst þú vera fullorðin og tilbúin til að takast á við heiminn þegar þú varst sextán. Barninu þínu líður nákvæmlega eins og þér leið og þú veist það alveg.
STÖÐVUM unglingadrykkju með því að viðurkenna raunveruleikann og hættum að segja hugsunarlaust “BARNIÐ MITT DREKKUR EKKI”. Ég tala nú ekki um að KAUPA áfengi fyrir unglingana.

Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.