Fyrir níu árum síðan kynntist ég unnusta mínum og fjölskyldu hans og fljótlega eftir að ég fór að umgangast þau tók ég eftir því hvað unnustinn og systir hans eru ótrúlega almennileg við starfsfólk í búðum, á veitingastöðum, nágranna sína og fleiri.
Einhvernvegin eru þau alltaf tilbúin til að hjálpa sama hver á í hlut, þau spjalla við ókunnuga eins og um góða vini séu að ræða, og eru bara almennt kát og glöð í samskiptum við fólk.
Á þessum tíma var ég frekar kuldaleg við ókunnuga, gaf ekkert af mér þegar ég fór í búðir eða veislur, stíf í samskiptum og stundum svolítið fúl á móti (skil ekki alveg hvað unnustinn sá við mig á þessum tíma, en jæja).
Smátt og smátt fór ég að slaka aðeins á þegar kom að samskiptum við annað fólk þar sem hegðun þeirra smitaði mig og ég sá hvernig umhverfið þeirra var miklu áhugaverðara en “fúl á móti” umhverfið. Ég ákvað að tileinka mér að brosa til afgreiðslufólks, heilsa nágrönnunum og spjalla við þá, reyna vera hjálpleg, vera með gott viðmót og tileinka mér jákvæðni en með því breyta þessum hlutum og vanda mig í samskiptum hefur líf mitt breyst ótrúlega.
Núna er líf mitt fullt af tækifærum, ég er að kynnast órúlega skemmtilegu fólki og lífið er miklu innihaldsríkara.
Stundum gleymi ég mér, hreyti frá mér orðum, er alltof stíf við ókunnugt fólk, en mér fer stöðugt fram. Ég er allavegana búin að komast að því að mér finnst miklu skemmtilegra að vera jákvæð og glöð þegar kemur að samskiptum við fólk en að vera fúl á móti.
Það tók smá tíma að breyta þessari hegðun, fyrst var ég feimin, þorði ekki að leyfa mér að opna mig smá og slaka á, en á einhverjum tímapunkti var eins og eitthvað gerðist og í kjölfarið fóru allskonar spennandi hlutir að gerast í kringum mig. Bara af því að viðmótið MITT breyttist.
Ég mæli með að þú skoðir aðeins hvernig þú ert þegar kemur að því að hafa samskipti við ókunnuga, hvernig ertu við nágrannana þína, hvernig leysir þú ágreining og í leiðinni staldrir aðeins við áður en þú bregst við aðstæðum, en það er eitt mottó sem ég hef farið eftir undanfarið og er það:
Pick your fights… en með því hef ég komist hjá því að eyða orku í hluti sem skipta nákvæmlega engu máli.
- Hrósaðu starfsmanninum í matvöruversluninni.
- Láttu vita á veitingarstaðnum þegar þú ert ánægð.
- Sýndu nágranna þínum áhuga og spjallaðu við hann um daginn og veginn.
- Brostu til sem flestra sem þú hefur samskipti við.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.