Margir kannast við það að senda tugi tölvupósta á hverjum degi, aðrir kannast við að fá tugi tölvupósta á dag og hvort sem þú ert í hlutverki þess sem skrifar tölvupóstinn eða lest hann þá eru nokkrar grundvallarreglur sem eru í gildi þegar um tölvupóst er að ræða.
Ekki senda tölvupóst þegar þú ert reið eða í uppnámi:
Þegar við erum í uppnámi er algengt að láta orð falla sem eru sterk og við segjum oft hluti sem við sjáum eftir. Skrifaðu niður það sem þú vilt segja í ritvinnsluforrit, róaðu þig niður, leyfðu bréfinu jafnvel að kólna yfir nótt og lestu það svo yfir þegar þú hefur náð tilfinningalegu jafnvægi.
Ekki nota hástafi og upphrópunarmerki:
ÞAÐ SKIPTIR MÁLI HVORT ÞÚ SKRIFAR Í HÁSTÖFUM EÐA EKKI!!!!!!
Það að skrifa í hástöfum merkir að þú ert að HRÓPA. Bættu við nokkrum upphrópunarmerkjum og HRÓPIÐ breytist í ÖSKUR OG FREKJU!!!!!!!
Hróp og öskur í tölvupósti flokkast undir dónaskap og virðingarleysi, sýndu kurteisi þegar þú skrifar tölvupósta.
Ekki gera ráð fyrir að bréfið fari ekki til annarra:
Þegar þú skrifar tölvupóst, sérstaklega í vinnunni, hafðu það í huga að þessi póstur getur farið á flakk. Það er algengt að bæta þarf einstaklingum inn í samræður eða það þarf að áframsenda tölvupóstinn á fleiri og þá vilt þú ekki hafa einkahúmor, illa stafsettan texta eða yfirlýsingar sem eiga ekki heima í tölvupósti.
Það er auðvelt að tileinka sér þessar reglur og er fyrsta skrefið að lesa yfir tölvupóstinn áður en þú sendir hann, ef hann inniheldur upphrópunarmerki og orð í hástöfum, lagaðu það og að lokum spurðu sjálfa þig að því hvort það sé í lagi að áframsenda póstinn á ótengdan aðila.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.