Hvernig væri að slökkva á símanum og svissa inn á fölskylduna þína?… hef tekið eftir því að foreldrar eru allt of uppteknir við að hanga í símanum, vafra á netinu og facebook er tekið fram yfir tíma sem þú getur eytt með maka eða börnunum.
Hvernig væri að slökkva á öllum þessum raftækjum og tileinka fjölskyldunni meira af tímanum? Jafnvel taka til fyrirmyndar og hverfa til 1985 þegar engin sjónvarpsdagskrá var í sjónvarpinu á fimmtudagskvöldum, þá var bara sýnd stillimyndin og engin sjónvarpsútsending var allan júlímánuð – því þá fóru allir starfsmenn sjónvarpsins í sitt sumarfrí.
Það voru góðir tímar, göturnar og garðarnir fylltust af fólki, fjölskyldur gáfu sér tíma til að hitta vini spila eða grilla og farið var í frisbí langt fram á kvöld -jafnvel skroppið í veiði og útileigur.
KVÖLDMATURINN
Ég hef það fyrir reglu á mínu heimili að matartíminn er tími fjölskyldunnar við matarborðið. Þetta er okkar samverustund til að borða og spjalla saman og njóta samverunnar. Enda er búið að gefa sér tíma til að elda kvöldmatinn. Þá er ekkert verið að stökkva upp frá borðum til að svara í símann enda veit fólk vel að við höfum samband þegar tími gefst.
TÖLVULAUSIR DAGAR
Einnig er hægt að gefa tölvunni frí. Það þýðir ekkert fyrir mig að reyna að hanga í tölvunni þegar 1 árs strákurinn minn er vakandi. Hann finnur að ég er ekki til staðar þó ég sé á svæðinu þannig að tölvan er notuð meðan hann tekur lúr eða á kvöldin þegar hann sefur – þegar upp er staðið þá er okkar tími saman dýrmætari og mun ánægjulegri en það að hanga á netinu.
Sumir foreldrar halda að það sé góð samverustund að fara með barninu út á róló en hún verður það ekki ef þú ert í símanum að athuga email, á facebook eða að skrifa sms á meðan barnið rótar í sandkassanum, nei þú ert svo sannarlega ekki til staðar á meðan þú ert með hugann við aðra hluti í símanum. Og barnið finnur fyrir því…
STEFNUMÓT VIÐ HVERN?
Mér finnst fátt leiðinlegra en að vera búin að plana stefnumót við vinkonur á kaffihúsi og síminn þeirra hringir stanslaust, eða verið er á fullu að senda sms. Ég hef spurt mig hvers vegna ég sé að eyða tíma mínum til að hitta manneskju sem er of upptekin við að vera ekki til staðar?”. Já mér finnst dónaskapur þegar ég er búin að ráðstafa mínum tíma með manneskju og það er stanslaust verið að senda sms -þú skilur hvað ég meina.
Getur þú ímyndað þér hvernig barninu þínu eða makanum líður, sem er að reyna að ná sambandi við þig og vill eiga góðar stundir með þér, þegar þú ert bara ekki til staðar?
Þeim finnst þau ekki vera metin að verðleikum get ég sagt þér.
Samverustundir með þeim sem þér þykir vænt um hvort sem um er að ræða, maka, börn, foreldra eða vini eru dýrmætar stundir.
Reynum því að stilla okkur á að nýta stundir okkar sem við eyðum saman vel og búum okkur til góða minningar.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.