Það eru til nokkrar gerðir af fólki sem gerir okkur lífið leitt í vinnunni. Hér er listi yfir persónuleikaeinkenni sumra tegundanna og ráð til þess að fást við þær!
1. EINRÆÐISHERRANN
Heldur sig á toppnum og gnæfir ógnvekjandi yfir starfsfólkið. Fljótur að reiðast og er óútreiknanlegur.
Lausnin: Ekki reyna að öskra hærra en hann. Neyddu hann frekar til að sjá hvernig hann hagar sér með því að segja til dæmis: Hvernig ætli samræður okkar myndu hljóma í eyrum þriðja aðila, sem væri hlutlaus?
2. BAKTALARINN
Ræðst á þig með gagnrýni og eitruðum athugasemdum. Kemur af stað slúðri og þykist svo blásaklaus af öllu saman.
Lausnin: Þetta er erfið staða og lítið sem þú getur gert. Ekki taka þátt í leiknum og tala illa um viðkomandi. Láttu illkvittnina sem vind um eyru þjóta og vertu viss um að samstarfsfélagarnir viti örugglega hvaða mann rebbinn hefur að geyma. Rógur segir mest um rógberann.
3. GAGNRÝNI RÁÐGJAFINN
Lætur sem hann viti allt, alveg sama hvert málefnið er og talar niður til annarra. Besservisser svokallaður.
Lausnin: Prófaðu að segja: ,,Þetta er ágætis ábending hjá þér og sennilega hefur þú rétt fyrir þér en hvernig væri að skoða mína hlið á málunum líka?‘‘
4. ÞÖGLI FÝLUPÚKINN
Talar í fýlulegum tón og orðaforðinn samanstendur af stuttum, fáum orðum. Lætur sem þú sért ekki til. Passíft agressívur.
Lausnin: Hér er lykillinn að ganga beint að honum og segja: ,,Hef ég gert eitthvað sem hefur komið þér úr jafnvægi og ef svo er, hvað var það?‘‘ Þessi gerð af fólki sér að sér þegar það er talað hreint út við það og það hefur neyðst til að viðurkenna að ekkert vandamál sé í gangi.
5. VÆRUKÆRI LETINGINN
Samskiptaþýður og ágætur náungi en veldur vandræðum þegar hann neitar að vinna verkefni (af því það stendur ekki í samningnum til dæmis).
Lausnin: Láttu hann fá sérstakt verkefni sem hann hefur enga afsökun fyrir að gera ekki. Settu mjög ákveðinn skilafrest á lok verkefnisins.
6. NÖLDRARINN
Kvartar yfir öllu og kennir alltaf öðrum um það sem miður fer. Reynir aldrei að finna lausn. Sjálf ávallt gersamlega blásaklaus af öllu líkt og baktalarinn. Svolítið eins og Indriði í Fóstbræðrum.
Lausnin: Segðu henni að þú hlustir aðeins á uppbyggjandi gagnrýni og lausnarmiðað tal.
7. BÖLSÝNISMAÐURINN
Finnst allt á niðurleið í fyrirtækinu, ástandið geti bara versnað og hefur endalausa ánægju af því að viðra hrakfallaspá sína við starfsfólkið. Annar “Indriði” í raun.
Lausnin:
Spurðu hvort hann sjái eitthvað jákvætt við vinnuna og hvort hann langi til að vera í vinnunni eftir fimm ár fyrst hann sé svona neikvæður. Ef hann gerir það ekki, segðu honum þá að leita sér að nýrri vinnu. Það sé ekki seinna vænnda.
Gangi þér nú vel með þetta. Við veljum okkur vinnu en ekki endilega vinnufélagana. Galdurinn er bara að kunna að takast á við þetta fólk!
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.