Þér þykir mjög vænt um allar vinkonur þínar. Það er bara svo erfitt að finna tíma til að sinna þeim öllum að það er farið að skapa vandamál hjá þér. Til þess að vinna bug á vandamálinu er besta leiðin, þótt hún hljómi kaldranalega, að forgangsraða vinkonum þínum.
Gömlu góðu æskuvinkonurnar, starfsfélagarnir, saumaklúbburinn, vinkonur innan fjölskyldunnar, kunningakonur úr ræktinni, vinkonur úr skólanum, vinkonur vinkvenna … Úff! Langflestar konur eiga stóran vinkvennahóp og geta varla hugsað sér lífið án þeirra enda vinkonurnar sálufélagar sem ganga saman í gegnum gleði og sorg, oft ævina á enda. Vinátta kvenna er djúp og innileg. Einmitt þess vegna er það svo erfitt þegar sú staða kemur upp að kona er mjög upptekin vegna vinnu, ástarsambands eða barnauppeldis og sambandinu við vinkonurnar fer að hraka.
Þá upplifir konan sig stundum sem slæma vinkonu, finnst hún vera að vanrækja vináttusamböndin og það getur orsakað samviskubit. Þegar svona aðstæður skapast er ráðlegt að búa til svokallaðan vinkonupýramída: Raða vinkonum í nokkurs konar forgangsröð þar sem besta og nánasta vinkonan trónir efst en hópur kunningjakvenna raðast síðan niður eftir pýramídanum.
5 leiðir til að forgangsraða vinkonum
1. Sálufélaginn
Líklega áttu aðeins eina vinkonu sem þú getur kallað sálufélaga þinn; þína allra bestu vinkonu. Þú eyðir mestum frítíma með henni og þér þykir óhemju vænt um hana. Hún er sú sem þú talar daglega við í síma, hún veit alltaf hvað hún á að segja við þig þegar þér líður illa og veit líka upp á hár hvenær er best að þegja. Hún er eina manneskjan sem þú getur treyst fyrir öllum leyndarmálum þínum og þið þurfið aldrei að óttast höfnun eða óréttmæta gagnrýni frá hvor annarri. Þið getið legið fyrir framan sjónvarpið, sleppt ykkur í ísáti og hlegið eða grátið saman. Samkennd og traust einkenna vináttuna. Það er sama hvað gengur á í lífi ykkar – þið eigið alltaf tíma aflögu fyrir bestu vinkonuna.
2. Kunningjakonurnar sem koma og fara
Það væri samt svolítið skrýtið að eiga bara eina vinkonu og þess vegna eiga flestar konur hóp af kunningjakonum. Þær eru líka fínustu vinkonur. Þú hefur sterkt samband við þær og hittir þær nokkuð reglulega. Þær uppfylla sömu þarfir og sálufélaginn, bara ekki eins oft. Það er einmitt það sem er svo frábært við kunningjakonur því það er gaman að njóta félagsskapar við ólíka einstaklinga. Ein þeirra er kannski meiriháttar samræðusnillingur, ein mikill stuðbolti sem er alltaf til í að skemmta sér og ein er ef til vill kúrudýr í sér sem er notalegt að horfa á góða seríu með. Það sniðuga við kunningjakonur er að þær koma og fara. Þú ert stöðugt að eignast kunningjakonur á lífsleiðinni og stundum þróast slíkt samband út í sálufélagasamband.
3. Vinkonur úr vinnunni
Vinnufélagavinátta getur reynst flókin. Þú ert í bókstaflegri merkingu samningsbundin til þess að eyða fimm dögum vikunnar með samstarfsfélögum. Vinátta á vinnustöðum getur verið flókið fyrirbæri vegna mismunandi stöðu fólks innan vinnustaðarins og misstrangra reglna um samskipti þar. Suma vinnufélaga áttu gott með að umgangast, en aðra þolir þú alls ekki. Þú ferð í hádegisverð með sumum þeirra stöku sinnum eða hittir þá jafnvel um helgar. Það er akkúrat lykillinn: Ef þú sækist eftir félagsskap þeirra utan vinnutíma – þá flokkast þeir undir vini.
4. Systrakærleikurinn
Ef þú ert svo heppin að eiga skap með einu systkina þinna eða jafnvel móður þinni, þá geta þau hæglega verið vinir þínir líka. Í raun geta fjölskyldumeðlimir verið fyrirtaks félagar því þú getur verið fullkomlega heiðarleg við þá og þeir munu alltaf elska þig. Þeir gera oftast ekki of miklar kröfur til þín varðandi tíma þinn, því þeir vita að þú átt aðra vini líka.
5. Gleðskapsvinir
Þetta eru vinir sem hafa varla séð þig edrú og þekkja þig í raun sama og ekkert. Þetta eru þær vinkonur sem þú býður í alls konar partí. Þið getið verið frjálslegar saman, dansað fram eftir öllu og blaðrað af hjartans lyst, því það er enginn eftirmáli af þessum samskiptum. Ef þið hittist úti í búð á mánudagsmorgni er líklegt að þið hafið ekki hugmynd um hvað þið eigið að segja hvor við aðra. Þið hafið að öllum líkindum kynnst í gegnum sameiginlega vinkonu og eigið ekkert annað sameiginlegt.
Skynsamlegt er að eyða ekki of miklum tíma með partívinkonum og takmarka samskiptin við þær við einu sinni í mánuði … svona heilsunnar vegna! 😉
Svo er bara að hafa hugfast að festast aldrei í samskiptum sem láta þér ekki líða vel. Vinir og makar eiga að vera með okkur í lífinu af því þannig finnst okkur lífið betra, ekki vegna þess að við skuldum þeim samveru. Lífið er of stutt í slíkt.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.