Reiði á vinnustað er ein af erfiðustu og mest streituvaldandi tilfinningum sem fólk upplifir í vinnunni og það getur reynst mörgum mjög erfitt að hafa stjórn á henni.
Vinnustaðurinn er líklega eini staðurinn þar sem annað fólk hefur vald yfir þér. Auk yfirmanna þinna þarftu að fást við viðskiptavini, samkeppnisaðila og samstarfsfólk. Allt þetta fólk getur valdið þér vonbrigðum, sært þig, ruglað þig í ríminu, farið á bak við þig og komið þér úr jafnvægi.
Ef þú þjáist af innbyrgðri reiði í vinnunni þá gengur ekki til lengdar að sópa henni undir teppið. Þú verður að fást við þessa öflugu tilfinningu og takast á við vandamálið af fullri alvöru. Jafnvel lítil reiði sem nær yfir langan tíma er hættuleg heilsu þinni, samskiptum þínum við fólk, hamingju þinni og alveg örugglega starfsframa þínum. Sem betur fer eru til ýmsar leiðir til þess að hafa stjórn á reiði sinni, það er hægt að vinna með henni og stýra hinum neikvæðu öflum reiðinnar inn á jákvæðari og meira skapandi brautir.
MISMUNANDI GERÐIR REIÐI
Í vinnunni, þar sem valddreifingin er ójöfn og aðaláherslan er lögð á að auka fjármagn fyrirtækisins, getur sú staða komið upp að starfsmaður verði fyrir órétti. Hér koma nokkur dæmi:
SJÁLFSÁSÖKUNARREIÐI
Dagný er deildarstjóri hjá stóru fyrirtæki í viðskiptaheiminum. Dag einn þegar hún kom til vinnu, lágu skilaboð á skrifborðinu hennar þess efnis að hún ætti að fækka starfsfólkinu á sinni deild um 20% en hún yrði jafnframt að skila afköstum í samræmi við fyrri áætlun. Jólabónusinn hennar byggðist á því að henni tækist að halda þeirri áætlun.
Þessi hugmynd yfirmanns Dagnýjar var illa skipulögð og hann hafði greinileg enga hugmynd um álagið sem Dagný var undir á deildinni. Nú, okkar kona varð bálreið, en leið samt illa yfir reiði sinni og tilfinningum. Í stað þess að kenna yfirmanninum um reiði sína þá varð hún reið út í sjálfa sig fyrir að hafa ekki meiri stjórn á tilfinningum sínum. Hún leit á reiði sína sem persónulegan veikleika.
BÆLING
Dagný fann virkilega til reiði. En sumir upplifa ekki þessa sterku tilfinningu sem reiði heldur þveröfugt; hún getur komið fram í orkuleysi og pirringi og fólk getur orðið ráðvillt. Bæld reiði er raunveruleg tilfinning ekki síður en hin sterka upplifun sem oft fylgir reiði – en hún tekur á sig öðruvísi og óljósara form. Að bæla reiði sína í vinnunni, sérstaklega gagnvart yfirmönnum, getur orðið til þess að viðkomandi fær ekki útrás fyrir hið ólgandi, undirliggjandi uppnám. Ef slíkt ástand varir lengi, er hætt við því að það komi niður á andlegri heilsu og jafnvel líkamlegri.
YFIRFÆRSLA REIÐI
Jóhann er sölustjóri hjá tölvufyrirtæki. Einn föstudaginn hringdi viðskiptavinur og sagðist vera hættur við mikil tölvukaup en þau áttu að vera í höfn. Rétt eftir að símtalinu lauk kom Birna, sem var ein af sölumönnunum, inn á skrifstofu Jóhanns til þess að spyrja hvort hún gæti mögulega breytt sumarfrístímanum sínum. ,,Heldurðu að ég hafi ekkert betra að gera en að velta mér upp úr sumarfríum allra?“ hreytti Jóhann út úr sér.
Vald stjórnar aðstæðum sem þessum. Afkoma Jóhanns var háð því að halda viðskiptavinunum ánægðum og að pantanir streymdu inn og því gat hann ekki reiðst tillitslausum viðskiptavini sem hafði brugðist honum. Þess vegna yfirfærði hann reiði sína á Birnu.
Hvernig sem við upplifum það þá verðum við öll einhvern tíma reið í vinnunni. Reiði er mjög öflug tilfinning og það þarf að lærast af fást við hana á annan hátt en með bræðisköstum, bælingu eða yfirfærslu.
FINNDU HVERSU REIÐ ÞÚ ERT
Fyrsta skrefið í glímunni við reiðina er að gera sér grein fyrir henni. Þetta kemur fólki oft á óvart því það telur sig einmitt gera það, þegar það er reitt. En oft er ekki svo. Reiði er það voldug tilfinning að oft myndast ekkert rými á milli þess að upplifa reiðina og fást við hana um leið. Jafnvel þótt þú bælir hana niður, eins og fólk neyðist oft til að gera á vinnustað, þá getur þú verið heltekin af henni.
Ein ástæða þess að við springum ekki úr reiði og fáum strax útrás er sú að við erum ekki reiðubúin til þess að finna og upplifa reiðina sem tilfinningu eina og sér. Þegar fólk fær útrás fyrir reiði sína þá fylgir því viss léttir.
Ein leiðin er sú að tala við sjálfa sig í huganum: ,,Nú er ég reið. Rödd mín er samt ekki reið.“
Því meira sem þú finnur fyrir reiðinni; maginn herpist saman og hjartsláttur eykst, því meira rými myndast kringum reiðina og þá er að láta þolinmæðina hjálpa sér. Það hjálpar enn meira ef þú andar frá þér orðinu reiði og það getur veitt þér hægláta útrás meðan þú gengur um á vinnustaðnum og andar djúpt og rólega. Að heyra þína innri rödd segja þér sannleikann um tilfinningar þínar, auk þess sem það er róandi, getur orðið til þess að þú hafa stjórn á sjálfri þér en það er lykillinn að umbreytingu reiðinnar.
UMBREYTING REIÐI
Á þessu stigi málsins getur þú leitast við að umbreyta reiðinni og beina henni í jákvæðan farveg. Ein leið til þess að umbreyta reiði er að einblína á tilfinningar sem eru gagnstæðar henni; eins og góðmennsku, fyrirgefningu og örlæti. Venjulega upplifum við þessar tilfinningar þegar okkur líður vel og við erum örugg í umhverfi okkar. Það er mögulegt að kalla fram þessar jákvæðu tilfinningar þrátt fyrir að við séum reið, særð og í uppnámi.
Við getum tekið búddatrúarmenn okkur til fyrirmyndar í þessum aðstæðum. Þeir eru oftast með dularfullt lítið bros eða svokallað hálfbros. Það er ekki breitt bros heldur lyftast varirnar aðeins upp á við. Næst þegar þú verður reið og ert kannski að segja við sjálfa þig:
,,Núna er ég reið“, láttu þá varirnar mynda lítið bros. Þú hugsar líklega að þú sért reið og það sé fáranlegt að brosa en í raun snýst málið um þína innri líðan og hvernig þú reynir að hafa jákvæð áhrif á hana.
Þetta er ekki auðvelt en endilega prófaðu þig áfram og mundu að æfingin skapar meistarann!
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.