Þegar ég var í fyrsta bekk hefði ég ekki fyrir mitt litla líf þorað að tala við manneskju í öðrum bekk. Þau voru eldri og þau skyldi ég virða. Í dag sé ég hinsvegar 7 ára börn rífa kjaft, jafnvel við fullorðna, eins og ekkert sé sjálfssagðara.
Það er samt svo auðvelt að vera kurteis og í 90% tilvika þarftu ekki að fórna neinu fyrir kurteisina. Oftast eru þetta mjög litlir hlutir sem samt gera svo mikið fyrir aðra.
Þegar einhver stoppar fyrir vegfarenda eða hleypir öðrum bíl á undan sér finnst mér lágmark að vinka og þakka fyrir. Persónulega þoli ég ekki að hleypa bíl á undan mér eða stoppa fyrir manneskju sem labbar útá miðja götu ef þau veifa mér ekki. Þetta er dæmi um hlut sem er svooo einfalt að fylgja eftir. Þökkum fyrir okkur í umferðinni.
Þegar ég stend í röðinni í Hagkaup með einn banana og kókdós og manneskjan á undan mér í röðinni er með troooðfulla körfu af vörum. Okei kannski er þetta frekja í mér en mér finnst kurteisi að hleypa manneskju sem er með eina til þrjár vörur á undan sér í röðinni. Sennilega ekki allir sammála mér hér en allavega þykir mér ofboðslega vænt um þegar fólk hleypir mér á undan, enda geri ég það alltaf sjálf!
Þegar fólk hnerrar – segið “guð hjálpi þér”. Ég segi það alltaf við alla, jafnvel ókunnugt fólk útá götu. Bara almenn kurteisi!
Ég vinn í verslun og einfaldlega þoli það ekki þegar fólk kemur inn rétt fyrir lokun og skoðar alla búðina , fer svo að máta og hangir í búðinni í 20 mínútur eftir lokun. Aldrei myndi mér detta í hug að gera þetta. Hugsar þetta fólk bara: “Æ ég get alveg verið hérna, afgreiðslukonan á sér pottþétt ekkert líf og nennir örugglega að hanga hérna löngu eftir að hún á að vera búin að vinna” ?
Skoðun er eitthvað sem allir hafa. Það er ekkert til sem heitir “RÖNG skoðun” – samt er svo mikið að fólki sem byrjar að þræta þegar fólk er með sínar eigin skoðanir.
Dæmi:
Jóna: “Mér finnst Ryan Gosling ekki heitur”
Gunna: “Það er ekki rétt hjá þér! Hann ER heitur”
Argasti dónaskapur! Við erum ekki öll eins.
Að tala í boðhætti. Þetta er rosalega slæmur ávani og lætur mann líta út eins og algjöra frekju jafnvel þótt maður sé það alls ekki.
Dæmi:
Boðháttur: “Réttu mér geislasverðið!”
Kurteisi: “Viltu vera svo góð að rétta mér geislasverðið?”
Það er mjög einfalt að vera kurteis, elskum náungann og brosum framan í heiminn! 🙂
Stella Björt útskrifaðist úr Borgó 2010 og starfar nú sem verslunarstjóri í Topshop í Smáralind. Þess á milli tekur hún að sér stílistaverkefni og hefur tekið námskeið í stíliseringu í London College of Fashion en stefnir á fullt nám þar í framtíðinni. Stella er tvíburi.