Ég las alveg bráðfyndinn pistil eftir vin minn um Lögmál karlmanna sem fékk mig til að hugsa um allskonar “furðulegar” óskráðar reglur sem við konur þurfum að hlýta í samskiptum okkar.
Það er t.d. eitt sem er alveg nauðsynlegt – Að hrósa vinkonu ef hún er búin að klippa og lita á sér hárið. Það er eiginlega alveg bannað að gera það ekki. Ef maður þykist ekki taka eftir breytingu, því manni finnst klippingin hræðileg eða liturinn alveg út í hött þá sárnar henni samt því hún fattar að þá fílar maður ekki þetta nýja lúkk. Enn verra er að segja skoðun sína og þessvegna ljúga konur mjög oft til að særa ekki hvor aðra.
Það sama á við um föt. Ég lenti einu sinni í því að vinkona min bauð mér sérstaklega í heimsókn til að sýna mér “geggjuðu nýju skóna sína” sem voru svo dýrir að hún keypti þá á visa-rað.
Mér þóttu þeir hræðilegir og vissi ekki hvernig ég gat komist út úr þessum aðstæðum án þess að særa hana svo ég þvældi út úr mér að þeir væru mjög “sérstakir”. Hún var sem betur fer í svo mikilli gleðivímu yfir þessum skóm að hún tók því sem hrósi.
Ég hef oft pælt í því hvað álit annarra á útlitinu virðist skipta konur meira máli en karlmenn. Ég hef oftar séð menn gera grín að klippingu og fatnaði hvors annars en hrósa hvor öðrum og þeim virðist alveg sama.
Ef ég myndi hitta vinkonu mína á skemmtistað og segja við hana að hún væri eins og ódýr drusla í nýja kjólnum sínum og hlægja hrossahlátri þá myndi hún aldrei tala við mig aftur, en hjá karlmönnum er samskonar hegðun bara tekin sem gríni.
Við konur göngum meira segja stundum svo langt í meðvirkni okkar að ef vinkona er búin að bæta á sig og segist vera á bömmer yfir því þá er mun líklegra að við gerum lítið úr því og segjum “hvaða vitleysa, þú lítur svo vel út” en að taka undir með henni og segja að við höfum tekið eftir því og hvort hún ætli að gera eitthvað í því. Enda vitum við að það er mun líklegra að hún hafi verið að fiska eftir uppörvun frekar en hreinskilni með því að lýsa yfir þessum áhyggjum sínum.
Þetta er eitt af því sem ég heyri karlmenn í kringum mig sífellt furða sig á. Þeir skilja ekki þessar samskiptareglur en læra með tíð og tíma að tileinka sér þær í samskiptum við konur til að halda friðinn.
Sjálf hef ég orðið hreinskilnari með árunum og reynt að ganga hinn gullna meðalveg þegar ég er spurð um álit því ég hef það ekki lengur í mér að ljúga nema mikið sé í húfi.
Það má til dæmis ALDREI gagnrýna brúðarkjól sem búið er að velja eða nota. Þú verður að setja upp sparibrosið og segja að viðkomandi hafi verið glæsileg í honum sama þó þér hafi fundist eitthvað annað.
Annað sem mér finnst þreytandi er að konur virðast ekki geta hafið umræður á Facebook eða sms án þess að nota orð eins og “sæta”, “fallegust” og “skvísa”.
Það er auðvitað gaman að því í hófi en þegar svona upphafsorð eru orðin nauðsyn í samskiptum þá er það frekar þreytt…
Ég væri alveg til í að við hættum þessum fölsku samskiptum og lærðum að taka hreinskilinni gagnrýni.
Ef við værum hreinskilnari þá yrðum við líka enn ánægðari þegar við fengjum hrós því þá myndum við vita að það væri einlægt.
Við megum ekki vera svo óöruggar með okkur að við förum á bömmer vegna þess að öllum finnst við ekki æðislega smart, sætar og flottar – Alltaf.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.