Engin setning rammar fyrirbærið betur inn eða skýrir jafn einfaldlega hvað þetta umtalaða fyrirbæri er í raun og veru.
Við skulum endurtaka hana saman: Meðvirkni – Þegar þú veist ekki hvar þú endar og hvar aðrir byrja.
Mikið hefur verið burðast með þetta hugtak fram og aftur og önnur hver manneskja telur sjálfa sig meðvirka þannig að skerðing á lífsgæðum hljótist af.
Þetta er eflaust rétt.
Við erum öll meira eða minna meðvirk en bara mismikið, á misjöfnum sviðum lífsins og því misjafnt hvernig þetta kemur niður á okkur.
En meðvirkt fólk á það allt sameiginlegt að vita ekki alltaf hvar það sjálft endar og hvar aðrir byrja.
Þannig ruglar það saman eigin þörfum og löngunum við þarfir og langarnir annara. Það ruglar saman eigin hugsunum við hugsanir annara og heldur stundum að fólk hljóti nú bara að vera að hugsa nákvæmlega það sama og það sjálft. Gerir öðrum upp hugsanir, skoðanir og jafnvel þarfir.
Meðvirkt fólk er semsagt ekki með mörk á hreinu. Ýmist eru mörkin of mikil eða þá að þau vantar sárlega og því lætur manneskjan aðra stjórna sér fram úr hófi, kann ekki að segja nei, safnar upp með sér gremju og springur svo á endanum eða lendir í öðru andlegu tjóni með tilheyrandi óheilbrigðri hegðun.
Eins reyna meðvirkir einstaklingar oft að stjórna öðru fólki en það orsakast jú af því að vita ekki hvar eigin landhelgi endar og hvar annara byrjar. Það er verið að sigla inn fyrir kvíar annara einstaklinga og taka til í netunum.
Fá sambönd eru jafn hlaðin meðvirkni og sambönd mæðgna. Þetta vill oft verða erfiðara með aldrinum og lagast ekki fyrr en önnur eða báðar átta sig á því að það er nauðsynlegt að taka til í sambandinu og búa til vinkonusamband á jafningjagrundvelli en hætta að leika hlutverkin ‘móðir og barn’.
Auðvitað er móðurhlutverkið oft á tíðum meðvirkt í eðli sínu og því getur stundum verið flókið mál að finna út hvað er rétt og hvað er rangt og hvar ber að halda að sér höndum og hætta að stjórna, eða láta stjórna sér.
Að sjálfssögðu á þetta svo við í fleiri tegundum af samböndum hvort sem um er að ræða vinnufélaga, vinkonur, feðgin eða maka. Þegar þér finnst allt komið í samskiptalegan hnút getur verið gott að rifja upp hvar maður sjálfur endar og hvar aðrir byrja.
Þú ert þú og ég er ég og við erum ekki sama manneskjan.
Máttur einnar manneskju til að hafa áhrif á hugsanir eða athafnir annara nær ekki nema svo og svo langt, og restina þarf að láta örlögin – eða hana sjálfa um.
Meðvirkt fólk þarf fyrst og síðast að læra að sleppa tökunum á lífinu og öðrum, hætta að hafa áhyggjur af öllu og öllum og læra, á mjúkan máta, að setja sér mörk. Eða eins og meðlimir í sjálfshjálparsamtökunum Al Anon og Coda segja:
Let go and let god!
Hér er svo falleg lítil vísa sem minnir á æðruleysið og inniheldur sambærilegan boðskap. Hún er skrifuð af bandaríska heimspekingnum W.W. Bartley (1934-1990):
For every ailment under the sun
There is a remedy, or there is none;
If there be one, try to find it;
If there be none, never mind it.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.