Hefur þú tekið eftir því hvað karlmenn eru hrifnir af vasaljósum ?
Ég man þegar ég var lítil, þá fannst mér vasaljós vera eitt af undrum veraldar og hafði ég gaman að því að elta ljósið, leggjast upp í rúm með bók og lýsa á hana undir sæng og fara í draugaleiki. En þegar ég varð eldri fór sjarminn einhverra hluta vegna yfir vasaljósaundrinu og annað fangaði athygli mína.
Karlmenn aftur á móti virðast ekki þroskast, eldast, stækka eða hætta þessari vasaljósadýrkun og hef ég oftar en ekki orðið vitni af samtölum á milli karlmanna þar sem þeir ræða sín á milli hversu langt vasaljósið lýsir, hveru styrleikurin er og eiga jafnvel karlmenn nokkrar tegundir af vasaljósum, öll með sitthvort hlutverkið.
Sum blikka og það þykir töff, önnur eru með bláum ljóma svona eins og í CSI og heyrist þá “vá…” í þeim sem skoðar meðan önnur eru einhversskonar geislavasaljós sem ég átta mig ekki alveg á til hvers eru notuð – en það er önnur saga.
Um daginn kom vinkona mín í heimsókn og má segja að ég hafi séð ljósið þegar við fórum að ræða þessi mál en hún hafði einfalda skýringu á vasaljósadýrkun karlmanna.
Vasaljós er einfaldlega framlenging á litla manninum (*blikkblikk*) og af þeirri einföldu ástæðu finnast karlmönnum svona hrikalega gaman að því að handfjatla ljósin og að sjálfsögðu eru þau flottari því lengra sem þau lýsa (*blikkblikk*).
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.