Eitt af því sem ég rek mig á í daglegu lífi er hvað kurteisi og mannasiðir eru á miklu undanhaldi. Mér finnst það sorglegt vegna þess að kurteisi kostar ekkert. Maður uppsker hinsvegar ríkulega ef maður temur sér almenna kurteisi og mannasiði.
Tökum hið klassíska dæmi með afgreiðslufólk. Gott afgreiðslufólk á að sjálfsögðu að bjóða góðan dag og bjóða aðstoð sína. þú sem kúnni átt að taka undir kveðjuna og þakka eða afþakka pent aðstoð. Annað er dónaskapur. EN ef þú lendir á afgreiðslumanni/þjóni, sem gleymir að bjóða góðan daginn þá græðir þú ekkert á því að móðgast og hreyta í viðkomandi „GÓÐAN DAGINN!!“ með hneykslistón. Þá ert þú orðinn dónaleg/ur.
Maður á að passa að láta ókurteisi annarra ekki breyta sinni framkomu
Ég lenti eitt sinn í því að vinkona kom og heimsótti mig á fæðingardeild. Á sama tíma var móðir mín stödd í heimsókn. Vinkonan stoppaði nokkurn tíma til að skoða barnið í bak og fyrir og spjalla við mig. Þegar hún fór hafði móðir mín orð á því hvað hún væri hryllilega ókurteis. Vinkonan hafði hvorki heilsað mömmu né óskað henni til hamingju, lét hreinlega eins og hún væri ekki þarna. Fyrstu viðbrögð mín voru verja vinkonuna. Ég sagði hana óörugga en mamma sagði að hvort sem maður væri óöruggur eða ekki, þá eigi maður að kunna mannasiði. Ég er sammála henni. Fólki úti í bæ er alveg sama um ástæður þess að þú velur að vera ókurteis. Hvort það er eitthvað sem þjakar þig. Það breytir engu.
Ekki virka merkileg með þig að óþörfu
Þegar þú þykist ekki sjá gamlan kunningja í búðinni vegna þess að þú ert ómáluð í heimagalla og vilt ekki „láta sjá þig svoleiðis“ þá er mjög líklegt að kunninginn álykti að þú sért „of merkileg með þig“ til að heilsa honum.
Þegar ég mæti ókurteisu fólki sem virðist hafa allt á hornum sér, vorkenni ég því. Ég ímynda mér að það hljóti að vera skelfilega leiðinlegt líf að hafa alltaf alla upp á móti sér. Lífið er miklu skemmtilegra ef maður sýnir náunganum vinsemd og virðingu.
8 leiðir til að bæta mannasiðina og samskiptin
- Í daglegum samskiptum, bjóddu góðan dag, gott kvöld, láttu fylgja með bros eða kinkaðu kolli.
- Ekki svara í síma ef þú ert stödd á fundi, verið er að afgreiða þig eða einhver er í mikilvægum samræðum við þig.
- Ekki skella á eða hreyta ónotum í símasölumenn eða fólk sem hringir vegna símakannanna, það er manneskja á hinum enda línunnar.
- Ekki vera ókurteis við börn eða unglinga vegna þess eins að þau eru í þeim aldurshóp og gætu “hugsanlega verið vandræðagemsar”.
- Ekki halda að þú “hafir rétt á” að vera ókurteis vegna þess að það er eitthvað að hjá þér í einkalífinu.
- Sýndu fólki áhuga, hlustaðu og leyfðu öðrum að komast að þegar þú ert að tala. Það er mjög þreytandi að eiga samskipti við manneskju sem er ekki að hlusta og er bara að bíða eftir að fá sjálf að segja eitthvað.
- Horfðu í augun á fólki og taktu almennilega í hendina á því þegar þú kynnir þig (ekki of fast, ekki of laust).
- Vertu stundvís. Það er vanvirðing við tíma annarra að koma of seint og þá sérstaklega ef það er reglulega. Ef þú tefst um meira en tíu mínútur, hringdu þá og láttu vita.
Maður getur líka grætt veraldlega á því að vera kurteis. Til dæmis fæ ég mjög oft óumbeðinn afslátt af vörum vegna þess að ég er kurteis við afgreiðslufólk. Ég spjalla við það og sýni því og vörunum áhuga. Það ýtir undir þjónustulundina. Um daginn keypti ég 30 þús króna vöru. Ég hafði verið smá stund að spjalla við afgreiðslukonuna og spurði í gamni hvort ég fengi staðgreiðsluafslátt. Hún sló 5 þúsund af!
Stuttu seinna keypti ég tölvu en sú sem var í mínum verðflokki var uppseld (ársgömul týpa) svo ég ætlaði bara að bíða þangað til seinna. Þá reiddi afgreiðslumaðurinn fram nýjustu týpunni af tölvunni og seldi mér hana á sama verði og sú gamla var komin á!
Ég gæti endalaust talið upp kosti þess að vera kurteis. Þetta er fyrsta reglan í mannlegum samskiptum. Hún sýnir að okkur er annt um aðra og því skulum við vanda okkur að vera næs. Það er ekki hægt að tapa á því.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.