Ég verð að viðurkenna eitt. Ég á við þann leiða vanda að stríða að ég stend mig oft að því að geta ekki notið þess að vera innan um fólk, vegna þess að mér finnst vond lykt af því, sérstaklega á tónleikum eða í bíó þar sem maður þarf að sitja við hlið, fyrir aftan eða framan ókunnugt fólk…
Þetta jaðrar við fóbíu. Ég hef staðið mig að því að vera á frábærum tónleikum en ekki getað hugsað um annað en að manneskjan fyrir framan mig sé með skítugt hár og ég finni vonda lyktina af því. Þetta er virkilega, virkilega glatað. Ég veit ekki hvort ég er með næmara lyktarskyn en annað fólk eða bara svona alvarlega biluð að finnast svona yfirþyrmandi ef einhver nálægt mér er með svitalykt, táfýlu eða “útilykt” af hárinu.
Ekki finnst mér heldur skárra ef fólk er búið að úða á sig sterku ilmvatni eða rakspíra, þá fæ ég höfuðverk. Reykelsi er það versta sem ég veit og ég sniðgeng algjörlega búðir,kaffihús og heimili sem nota reykelsi.
Ég hef ekkert á móti reykingarfólki en ég meika auðvitað heldur ekki lyktina af því, sérstaklega erfið er lyktin sem kemur af fólki sem stendur úti í kulda að reykja, þú veist – þessi súra úti-reykingarfýla.
Það er vandlifað hjá mér. Það var indæll eldri maður að aðstoða mig á verkstæði um daginn en ég var stuttaraleg og nánast dónaleg við hann því hann var svo andfúll að ég var bara að leita að næstu flóttaleið út. Takmörkuð og hæg geta hans á tölvur voru að gera út af við mig.
Með árunum hef ég lært að lifa með þessum lyktnæma galla mínum og hef stillt mig um að öskra á fólk að það þurfi að fara í bað, nota svitalyktareyði eða fá sér mintu… og bið bara um æðruleysi til að þola þetta og anda með munninnum.
En eins og mér finnst erfitt að lifa með þessum erfiðu lyktum sem þröngva sér inná svæðið mitt þá finnst mér líka dásamlegur ilmur af þeim sem ég elska. Ég nýt þess að liggja í hálsakoti mannsins míns og bara þefa af honum og mér finnst yndisleg og sæt lyktin af börnunum mínum sem eru alveg ómenguð af ilmvötnum eða sterkum sápum.
Ég tárast og fyllist söknuði þegar ég finn lyktina af kölnarvatninu eða Niveakreminu sem amma mín heitin notaði og er í himnaríki á vorin þegar ég finn ilminn af nýföllnu regni, blómum og grasi og þegar ég kem til útlanda þá upplifi ég strax og ég stíg út úr flugvélinni allt annan heim og fæ fiðring í magann því það er “útlandalykt”.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.