Áttu barn á skólaaldri eða stálpað hálffullorðið barn sem hefur flosnað upp úr skóla en er enn heima eftir nokkurra ára fjarvist úr menntakerfinu?
„Barnið“ þitt fær jafnvel enga vinnu en fær aftur á móti atvinnuleysisbætur eða framfærslufé frá sveitafélaginu. Hvað gerir þetta „barninu“? Væri ekki betra að það fengi vinnu, eitthvað til að stefna að þegar það fer að sofa á kvöldin og þyrfti þá að vakna að morgni og ætti erindi út úr húsi?
Já – börnin okkar eru fljót að vaxa úr grasi eins og sagt er. Þessi stutti tími þegar þau eru lítil og þurfa alfarið að treysta á umhyggju okkar, vernd og ástúð er ótrúlega fljótur að líða. Að vísu virðast sumir dagar ótrúlega lengi að líða á þessu tímabili, einkum þegar tanntakan er í gangi, magakveisur og að maður tali nú ekki um eyrnabólgur og annað í þessum dúr. Allt í einu er fæðingarorlofinu lokið og þá er það dagmamman eða leikskólinn sem tekur að hluta til við uppeldinu.
Gæðastundirnar ekki nógu margar
Það vill því miður oft þróast þannig að á þessum tíma verður miklu minna en við óskum úr gæðastundunum með barninu. Foreldrarnir vinna nánast allan sólarhringinn til að eiga fyrir húsnæði, mat og barnagæslu. Tíminn líður með ógnarhraða og barnið þitt er allt í einu komið í grunnskóla.
Já, grunnskóla þar sem öllum á að líða svo vel, allir eiga að fá aðstoð við hæfi því það er jú talað um einstaklingsmiðaðar námskrár – er það ekki annars?
Of margir nemendur í hverjum bekk
Menn tala fjálglega um mikilvægi þess að hver fái efni, námsaðstoð og andlega aðhlynningu eftir þörfum í grunnskólanum – og setja það jafnvel inn í reglugerðir.
Þetta sama ágæta fólk virðist hinsvegar því miður gleyma því að líta inn í kennslustofurnar og telja hve margir nemendur eru í hverjum bekk. Það eru nefnilega svo margir nemendur í sumum bekkjum grunnskólanna í dag að það er varla vinnandi vegur fyrir kennarann að sinna þeim öllum eftir þörfum í hverri kennslustund.
Hvernig er þetta svo með þá þjónustu sem börnin okkar að fá ef eitthvað amar að, ef eitthvað fer úrskeiðis? Hefur barnið þitt þurft á sérúrræði að halda í menntakerfinu? Hvað þurfti barnið þitt að bíða lengi eftir að komast að í sérkennslu, í námsver, í samtalsmeðferð, í fasta heimsóknartíma til námsráðgjafans ….. eða til sálfræðings? Gekk það bara 1,2 og 3 – eða tók það fleiri vikur eða jafnvel mánuði?
Vonandi líður barninu þínu vel, gengur vel að eignast trausta vini og er félagslega sterkt. Vonandi hefur þú nægan tíma til að sinna því þegar þú kemur heim úr vinnunni, fær um að aðstoða það með heimanámið ef það er eitthvað sem reynist barninu þínu erfitt.
Börnin eiga að haga sér vel
Hvaða kröfur gerum við til þeirrar þjónustu sem við teljum að börnin okkar eigi skilið af þjóðfélaginu? Við erum að vísu ábyrg fyrir uppeldi þeirra og velferð. Við berum sjálf ábyrgð á því að þau mæti í skólann, að þau komi vel undirbúin og við berum líka ábyrgð á því að þau hagi sér vel og að þau trufli ekki aðra nemendur í kennslustund – þó svo að þeim sjálfum líði illa. Þau eiga að haga sér vel undir öllum kringumstæðum – burtséð frá því hvort þau ráða við námsefnið eða ekki.
Hvað með barnið þitt sem á auðvelt með að læra, leggur sig stöðugt enn meira fram og er löngu búið með tilskilið námsefni. Hvaða þjónustu fær það? Hvernig er andlegri líðan þess háttað? Getur ekki verið að börnum sem geta skarað fram úr líði líka illa og þau þurfi líka að geta snúið sér til aðila innan skólans til að byggja upp sjálfstraust sitt?
Gefum okkur tíma til að huga að andlegri líðan barnanna okkar, á hvaða aldri sem þau eru. Stutt gæðastund þar sem barnið þitt skynjar skilyrðislausa ást þína og umhyggju fyrir því getur gert kraftaverk hvað varðar vellíðan barnsins.
Ef þig langar til að senda mér fyrirspurn og fá sendar fáeinar ráðleggingar varðandi að byggja upp sjálfstraust barns, sendu mér þá línu á coach@coach.is og segðu mér hvað þér þykir erfiðast hvað þetta varðar.
Ég hef mikla reynslu úr námskerfinu og er tilbúin að leggja þér lið. Jóna Björg Sætran, M.Ed., markþjálfi www.coach.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!