Fyrir tveimur árum bjó ég í New York í nokkrar vikur og starfaði sem Au Pair. Íbúðin okkar var staðsett við Harlem og mikið naut ég þess að rölta um með litlu frænku í kerrunni í sólinni. Sólin var þó ekki það sem yljaði mér um hjartarætur hvað mest.
Það sem vakti athygli mína var að allir brostu til mín og heilsuðu mér. Sama hvort það var afgreiðslufólk í verslun eða fólk úti á götu. Stundum kom það fyrir að litla frænka missti dót úr kerrunni og áður en ég hafði beygt mig niður eftir því höfðu vegfarendur orðið fyrri til.
Það var eins og ég væri partur af einhverri stórkostlega fallegri einingu þar sem fólk reyndi að auðga dag hvers annars.
HVER ER MUNURINN?
Verandi sálfræðinörd fór ég strax að velta því fyrir mér hvers vegna fólk sýndi þessa hegðun í svo miklum mæli í New York en síður á t.d. Íslandinu okkar.
Mér flugu í hug ástæður eins og þær að New York væri staður þar sem margir byggju einir og þetta væri ein leið til að upplifa sig sem hluta af heild? Svo virðist þó sem þetta smitist til fjölskyldufólks og í raun um alla borgina. -Hún einkennist af vinalegum samskiptum!
Þá fór ég að hugsa um Ísland. Hér heima virðist sem samskipti ókunnugra samborgara séu kaldari og einkennist ekki af jafn mikilli gleði.
Við lítum undan eða á símaskjáinn frekar en að heilsa fólki úti á götu! Þetta hef ég orðið vör við en geri mitt allra besta til að brosa, hrósa og gleðja á ferðum mínum um borgina og landið.
Það sem mér finnst einna sniðugast í þessum vangaveltum er að óskrifaðar reglur leynast víða á Íslandi…
VIÐ ERUM Á FJALLI, VIÐ ERUM EINS
…Til dæmis gekk ég á fjall um daginn. Þá heilsast sko Íslendingar!
Það að þeir séu að ganga upp eða niður sama fjall á sama tíma gerir þá að lítilli einingu sem á augljóslega eitthvað sameiginlegt þann daginn.
Hver einn og einasti maður heilsaði og ég hugsaði með mér að kveðjan innihéldi hugsunina: ,,Já, góðan daginn vinur! við erum að ganga á sama frábæra fjallið! …flott hjá okkur-verum vinir og heilsumst! gleði gleði!”
Það sama á við um hundaeigendur. Þeir virðast heilsast þó þeir hafi aldrei hist áður – þeir eiga bara báðir hund. Kveðja þeirra á milli felst kannski í hugsununum: ,,Nei, hæ! þú átt líka hund…við erum eins. Verum vinir”.
Þetta er fyndið í ljósi þess að við erum þrjúhundruðþúsund manna þjóð á eyju í Atlantshafi.
Í mínum augum eigum við ansi margt sameiginlegt. Við erum hluti af sömu þjóð, tölum um veðrið alla daga sem alltaf virðist vinsælt umræðuefni til að brjóta ísinn, finnst að túristar ættu að passa sig betur á illfærum vegum svo björgunarsveitir séu ekki sí og æ að bjarga þeim í neyð, erum stolt af landsliðum, hittum alltaf einhvern sem við þekkjum í Kringlunni og á Laugaveginum, könnumst við fyrrverandi kærustur/kærasta maka okkar, þykir vænt um Bæjarins Bestu og svo áfram mætti telja.
Mikið myndi það gleðja mig og eflaust marga aðra ef við myndum bara þykjast vera að labba upp og niður sama fjallið! <3
Hulda Jónsdóttir Tölgyes er 28 ára og úr Reykjavík.
Hulda hefur lokið tveimur háskólaprófum í sálfræði og stefnir ótrauð á að læra enn meira innan þess sviðs á næstu árum.
Hún er jafnframt lærður naglafræðingur úr MOOD skólanum og einn af stofnendum poppkórsins Vocal Project.
Hulda er hundafrík sem naglalakkar stundum tíkina sína!