Um daginn átti ég langt spjall við vinkonu mína um gælunafnanotkun. Við ræddum það fram og aftur hverjum leyfist að kalla hvern ‘elsku’, ‘mín’, ‘dúllu’, ‘krútt’ og jafnvel gælunöfnum eins og Sísí, Sigga eða Magga.
Niðurstaðan var í stuttu máli sú að það færi alfarið eftir því hver notar gæluorðin, eða nöfnin, og í hvaða tilgangi.
Til dæmis getur aldursmunur skipt miklu máli þegar gæluorð eins og elskan, vænan, vinan eða mín eru notuð. Reglan á í sjálfu sér að vera sú að maður ætti ekki að kalla fólk sem er 15-20+ árum eldra en maður sjálfur slíkum nöfnum nema um skyldan ættingja eða aðra nákomna væri að ræða.
Hinsvegar vorum við sammála um að eldri konum væri frjálst að kalla okkur elskurnar sínar, vinu eða mín, svo lengi sem við þekktum þær og raunveruleg vinátta væri fyrir hendi – já eða bara velvilji.
DÚLLAN, KRÚTTIÐ og ELSKAN
Annað sem við vorum algjörlega sammála um var hversu óviðeigandi það væri að kalla fullorðnar manneskjur krútt eða dúllur, nema þá í einhverskonar gríni. Þessháttar gæluorðanotkun á aðeins við um börn eða ungmenni og verður óviðeigandi (og stundum jafnvel niðrandi) þegar fólk eldist. Þá gildir aldursmunur einu, hvort sú sem kallar þig dúllu er 20 árum eldri en ekki, kona á þrítugs, fertugs eða fimmtugsaldri skilgreinir sig varla sem slíka.
Það vill nefninlega svo til að sumir nota slík orð í einskonar valdatafli. Eins og til að setja aðra niðurfyrir sig. Auðvitað á þetta alls ekki alltaf við en í sumum tengslum er þetta tilfellið og þá getur verið erfitt fyrir dúlluna, krúttið eða elskuna (sem er í raun ekki sérlega elskuð af viðmælandanum), að setja niður fótinn og biðja viðkomandi vinsamlegast um að hætta að kalla sig dúllu, krútt eða elsku.
GÆLUNÖFN
Annað sem við vorum sammála um var hvernig notkun á gælunöfnum getur verið óviðeigandi í sumum tilfellum. Margar konur sem ég þekki hafa síður viljað nota gælunöfn sín eftir því sem árin verða fleiri. Þannig þykir Ágústu ekki eðlilegt að kynna sig með því nafni en vera svo allt í einu kölluð “Gústa” af þeim sem hún kynnti sig fyrir sem Ágústu. Jafnvel mislíkar henni allt í einu nafnið svo mikið að hún biður vini og ættingja um að hætta að nota það. Þá er það þeirra að virða óskina og venja sig við.
Við vinkona mín urðum sammála um að réttast væri að kalla fólk ekki gælunöfnum svo lengi sem það kynnti sig fyrir okkur með réttu nafni. það á ekki endilega við að byrja að kalla konu sem kynnir sig sem Sigríði, “Siggu”, vegna þess að við heyrðum mömmu hennar nota það nafn, vinkonu eða systur.
Then we shan’t speak
Mér kemur til hugar atriði í myndinni Kings Speech þegar þeir Lionel og Bertie takast á um hvað ætti að kalla konunginn. Lionel vildi fá að kalla hann Bertie til að þeir yrðu á sama plani meðan konungurinn vildi ekki sætta sig við það.
BERTIE
Aren’t you going to start treating me Dr. Logue?
LIONEL
Only if you’re interested in being treated. Please, call me Lionel.
BERTIE
I prefer Doctor.
LIONEL
I prefer Lionel. What’ll I call you?
BERTIE
Your Royal Highness, then Sir after that.
LIONEL
A bit formal for here. What about your name?
BERTIE
Prince Albert Frederick Arthur George?
LIONEL
How about Bertie?
BERTIE
(flushes)
Only my family uses that.
LIONEL
Perfect. In here, it’s better if we’re equals.
BERTIE
If we were equal I wouldn’t be here. I’d be at home with my wife and no-one would give a damn.
Svo rífast þeir svolítið og áfram…
LIONEL
Everyone natters occasionally,Bertie.
BERTIE
Stop calling me that!
LIONEL
I’m not going to call you anything else.
BERTIE
Then we shan’t speak
Í raun var engin 100% skotheld lokaniðurstaða í þessum vangaveltum okkar vinkvennanna önnur en sú að það er ekki viðeigandi að tala við alla með sama hætti og að réttast væri að vanda sig við slíkt.
Við urðum sammála um að sumt á við í fjölskyldum og annað ekki. Virðingarfyllst er að kalla fólk því nafni eða nöfnum sem það kynnir sig með og forðast ber að kalla mikið eldri konur elskurnar sínar, dúllur – og hvað þá krútt, svo ekki sé minnst á vænuna.
Góðar stundir!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.