Það er alþekkt í okkar samfélagi að flokka fólk í týpuhópa. Flestir gera þetta og flestum finnst hópurinn sem þeir tilheyra „beztur“ um leið og reynt er að finna leiðir til að gera lítið úr öðrum hópum samfélagsins.
Algengar flokkanir eru: Uppi, skinka, listaspíra, flíspeysa, menntasnobbarinn, “white trash”, ríkisbubbi, feministi, heilsufrík, tískufrík, pólitíkus, djammari…
Flest eigum við voða auðvelt með að flokka fólk en hvað með okkur sjálf?
Ekki hef ég hugmynd um í hvaða hóp aðrir flokka mig? Kannski fer það eftir því hvar þau kynnast mér? Á þessum vef er ég pjattrófa. Er ég þá í „pjattrófu-hóp“ – og hvað er það?
What other people think of you is none of your business – Paulo Coehlo
Ekki get ég verið skinka, ég er löngu hætt að fara í strípur, ég fór síðast í ljós árið 1998 og ég hef aldrei stigið fæti í brúnkuklefa. Ég versla ekki í Kiss, ég fer aldrei í stutt og flegið á sama tíma, hef aldrei verið með gervineglur, gervihár eða farið í neins konar fegrunaraðgerð. Ok ég veit ég er ekki skinka.
Heilsufrík, Listaspíra, Tískufrík?
Ég er ekki listaspíra en ég fer alveg á listsýningar, í leikhús og á tónleika. Ég hef verið í ljósmyndun og haldið sýningu, ég á vini sem eru listamenn – en ég klæði mig ekki flippað, spái lítið í því hvað er póstmódernískt eða abstrakt impressjónismi og snobba ekki fyrir frægum listamönnum. Ef mér finnst eitthvað í list ljótt og heimskulegt þá finnst mér það hvort sem listamaðurinn er æðislega þekktur og vinsæll eða ekki.
Heilsufrík? Ég er með líkamsræktarkort, ég hef verið með einkaþjálfara, borðað gras og prótín og elska að borða hollt og fara í jóga – en ég fór síðast í ræktina fyrir tveim vikum, drekk 4-6 kaffibolla á dag, hef fengið mér pizzu tvisvar í þessarri viku, köku og kalóríufylltan bragðaref í dag… ég er greinilega ekki heilsufrík.
Tískufrík? Jú, ég vinn í tískubransanum, ég er með tískumenntun og finnst tíska skemmtileg og vildi eiga fullan fataskáp af McQueen, Balmain, Chloe ofl. En ég er ekki rík, ég á einstaka hönnunarflík sem ég elska en ég á fullt af fötum úr Zöru og H&M sem ég fíla líka. Ég hef engan tíma til að spá í hvað ég fer á morgnana og gríp oftast þann klæðnað sem þægilegast er að vera í þegar maður hleypur um allt með barn á öðrum handleggnum og skiptitösku, handtösku og fartölvu á hinum.
Mér finnst…
Ég hef menntun og pólítiskar skoðanir, ég fæddist ekki með silfurskeið í munni og mér finnst fólk eiga að vinna fyrir því sem það eignast. Mér er annt um náttúruna og dýrin og hef óbeit á álverum, bensínhákum og almennu tillitsleysi fólks fyrir umhverfi sínu og hvort öðru.
Ég er í allskonar nefndum og samstarfshópum og vinn í málefnum sem ég tel muni láta gott af sér leiða. En ég á börn og mann sem ég vil sinna vel og þá verður annað að bíða. Ég elska að ferðast, borða góðan mat, syngja og dansa og njóta þess að vera til en ég kýs líka að vera vel til höfð, fara vel með húð og hár og ég fer ekki út úr húsi án þess að vera með maskara.
Að mínu mati passa ég ekki í neinn af flokkunum sem ég nefndi áðan en passa þó pínulítið í þá alla.
Mér leiðist þetta gegndarlausa flokkunarkerfi og mér leiðist að heyra fáránlegar staðhæfingar eins og að ekki sé hægt að vera pjattaður feministi, umhverfissinnaður uppi, vel menntuð flíspeysa eða listræn skinka. Halló?
Flest erum við sitt lítið af hvoru og ættum að hætta að alhæfa, staðhæfa og dæma út í loftið.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.