Ég bíð spennt eftir þeim degi þegar fólk hættir að pæla í og velta sér upp úr holdarfari annarra.
Það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk er ekki í kjörþyngd. Má þar nefna andlega og eða líkamlega sjúkdóma, lyf, gen, áföll og fleira. Svo hafa ekki allir áhuga á því að vera í formi – so what!
Það er ekkert sem heitir svart og hvítt. Það er verulega þægileg einföldun. Málið er að tilveran er yfirleitt einhversstaðar mitt á milli. Það sést ef virkilega er kafað ofan í málin.
“If you judge people, you have no time to love them.”
Sagði Mother Teresa eitt sinn. Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá fullorðinn karlmann lýsa verulegum “áhyggjum” sínum af fólki í yfirþyngd. Myndskeið.
Það gefur auga leið að hér er ekki um neina umhyggju að ræða. Hér er maður sem hefur sjálfan sig upp (sennilega ómeðvitað) á kostnað annarra sem eru með hærri fituprósentu en hann. Hér er maður sem þarf greinilega á einhverskonar útrás að halda, koma frá sér hroka og pirringi út í kosmósið.
Mér sýnist á öllu að hann sé sá sem þurfi á hjálp að halda þar sem hann bókstaflega froðufellir yfir tilveru annarra sem passa ekki í hans box um ásættanlega lifnaðarhætti. Nei þakka þér fyrir, þú mátt bara halda þessu út af fyrir þig.
Þegar kemur að uppeldi barna gilda að sjálfsögðu aðrar reglur. Börn eiga að fá að kynnast hollu mataræði og hreyfingu. En fullorðinn einstaklingur á að fá að ráða sér sjálfur.
Það er ekki skrítið að fólk í yfirþyngd hafi tjáð sig um óöryggi og lágt sjálfsmat þegar fólk eins hann veður uppi, dæmandi og úthúðandi, spúandi eitri. Trúðu mér viðkomandi veit að hann/hún er í yfirþyngd og er gjörsamlega fær um að ákveða sjálf(ur) hvort hann geri eitthvað í málinu.
Hættum þessari forræðishyggju.
“Live and let live.”
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.