Ég held að ég sé eflaust ekki ein um að láta stundum GSM símana okkar fara í taugarnar á mér. Þetta eru vissulega frábær tæki en þau eru ekki alltaf jafn sniðug.
Til dæmis finnst mér óskaplega leiðinlegt að sitja í bíl, annaðhvort sem bílstjóri eða farþegi, með manneskju sem talar lengi í síma.
Í bílnum ef of mikil nánd fyrir símtöl.
Maður myndi aldrei sitja svona nálægt manneskju sem væri að rabba í símann ef ekki væri í bílnum. Fólk stendur oftast upp og gengur afsíðis til að tala í síma en því er ekki að heilsa í bíl. Þetta er hálfpartinn eins og að sitja kinn við kinn við manneskju sem er í símanum. Skrítið.
Sjálf reyni ég alltaf að láta fólk vita að ég hafi farþega í bílnum þegar hringt er í mig á ferðinni og með því er ég að benda á að hafa samtalið stutt. Alveg til fyrirmyndar 😉
Svo er óneitanlega leiðinlegt að sitja á kaffihúsi eða í matarboði þar sem símar eru hafðir uppi á borðum. Fólk er kannski að segja frá einhverju spennandi þegar síminn hringir í miðju kafi og allt í einu hættirðu að hlusta eða ert stoppuð af í miðri frásögn og með því hrynur stemmninginn.
Það er réttast að setja símann á silent við þessar aðstæður og hafa hann ofan í tösku.
Maður þarf ekki að vera tengdur við gervihnöttinn allan sólarhringinn. Við þurfum ekki að vera á mörgum stöðum í einu. Að skreppa með vinkonu á kaffihús tekur kannski klukkustund og þessi klukkustund ætti að vera afmörkuð fyrir ykkur tvær. Vinnufélagar, maki, krakkar og allir hinir ættu að lifa það af að bíða meðan þið segið hvor annari sögur og farið yfir málin. Og Facebook getur líka fengið smá frí þegar við hittumst.
Lærum að nota þessi tæki rétt og leyfum þeim ekki að skemma raunverulegar samverustundir okkar. Við getum alltaf verið í símanum og tölvunni en samverustund á að vera afmörkuð og fyrst og fremst fyrir fólkið sem er á staðnum. Sammála?
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.