Nálægð getur verið bæði þægilegt og óþægilegt fyrirbæri. Öll eigum við okkar ósýnilega þægindahring sem við hleypum ekki öðru fólki inn fyrir nema með leyfi. Þennan þægindahring væri jafnvel hægt að kalla rafsegulsvið eða bara áru.
Flest okkar, sem höfum orðið ástfangin, könnumst við þetta rafmagnaða og oft vanmetna augnablik sem á sér stað rétt áður en tveir amorskotnir einstaklingar snertast. Þetta kærkomna augnablik þegar við höfum hleypt einhverjum inn fyrir þægindahringinn, inn fyrir áruna. Slíkt augnarblik gætum við kallað þægilega nálægð.
Svo er það þessi óþægilega nálægð. Þar sem við þurfum að styðjast við þessi óskrifuðu lög um fjarlægðarmörk. Þessi fjarlægðarmörk eru sjálfsagt svolítið misjöfn eftir einstaklingum og oft á tíðum nokkuð óljós.
Tökum dæmi:
Dæmi eitt: Ég er stödd í hraðbanka sem ég hef hugsað mér að nota. Einhver er í hraðbankanum í sinni mjög svo persónulegu aðgerð.
Ég geri eftirfarandi. a) slæ á létt á rassinn á viðkomadi og segi “hæ ég er næst”. b) Stend vandræðalega nálægt viðkomandi og passa mig að anda ekki. En passa mig jafnframt að fara ekki of langt frá hraðbankanum svo einhver annar troði sér ekki inn á milli. c) Sit úti í bíl og græt því allir virðast troðast fram fyrir mig.
Dæmi tvö: Ég er nýkomin inn í litla lyftu með ferðatöskuna mína. Inni í lyftunni eru fjórir aðrir einstaklingar og einn stendur fyrir tökkunum sem stjórna lyftunni.
Ég geri eftirfarandi. a) Segi sjálfskipaða takkastjóranum að ég ætli á hæð þrjú, sjö og níu og hlæ svo vandræðalega að aulabrandaranum mínum en kem ekki nálægt tökkunum. b) Geri skjólvegg með töskunni minni og bíð eftir að allir aðrir fari úr lyftunni áður en ég gríp til aðgerða. c) kem óþægilega nálægt takkastjóranum, umla fyrirgefðu, við það færir hann sig og ég get valið hæðina mína.
Dæmi þrjú: Ég er nýbúin að borga matvöru fyrir 25.000 í stórmarkaðnum og rétt byrjuð að setja í poka. Ég geri mér fulla grein fyrir að ég á engann rétt lengur. Matvörur næstu viðskiptavina nálgast óþægilega hratt á færirbandinu og næsti viðskiptavinur er búin að stinga sér inn fyrir þægindahringinn minn.
Ég geri eftirfarandi. a) Leggst í gólfið í fósturstellingunni og grenja með ekkasogum. b) Ég blæs í mig kjarki, gef skít í að pokarnir rifni og ávextirnir mínir fari í steik, og hendi í pokana á núll einni. Enda hef ég alltaf verið góð í tetris. c) Ég lít á manneskjuna á eftir mér og segi blíðlega en pínu geðveikislega “Fyrirgefðu, en þú stendur inni í árunni minni”.
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come