Eftir margra ára hjónaband og mörg deilumál í gegnum tíðina hef ég ákveðið að auglýsa hér með eftir nýrri eiginkonu handa manninum mínum. Það hlýtur einhver að geta uppfyllt þær kröfur sem hann hefur, og það er ekki ég.
Þannig að, ef þú getur samsamað þig þessum eiginleikum og telur að þú og maðurinn minn eruð sem sköpuð fyrir hvort annað þá mun ég víkja, veita samstundarskilnað og leyfa manni mínum að njóta hamingjunnar með þér!
1. Útlitskröfur
Meðalkona á hæð (yfir 165 og undir 180) Fitt en ekki OF fitt, grönn en ekki OF grönn, með ágætlega stór brjóst, kúlulaga rass og lögulega leggi. Sítt hár, alls ekki stutt. Á að vera nógu myndarleg til að aðrir menn dáist að þér, en á þó ekki að veita þeim neina athygli sjálf fyrir utan almenna kurteisi. Á að klæða sig sexí án þess að vera dræsuleg og ekki nota mikið meiköpp en þó nógu mikið meiköpp til að líta sem best út.
2. Áhugamál
Annað hvort þurfa fótbolti, golf og veiði að vera meðal áhugamála eða að þér sé sama þó hann stundi þessi áhugamál sín af kappi meðan þú hugsar um börn og heimili (og finnur þér tíma til að fara í ræktina líka til að viðhalda boddíinu). Á kósý-kvöldum verður horft á stríðs- glæpa eða aksjónmyndir. Rómantískar gamanmyndir og drama er ekki í boði og grínmyndir koma bara til greina ef í þeim er mikið af kynlífsgríni. Það er einnig óæskilegt og turnoff ef þú fylgist með einhverjum raunveruleikaþáttum eða sápuóperum, þú átt að vera klár og hafa skoðanir en þó ekki svo mikið að þú megir ekki missa af Silfri Egils eða Fréttum endrum og eins. Ertu að tengja?
3. Hegðun
Þú átt að vera skilningsrík, tillitsöm og aldrei með “óþarfa vesen og drama”. Hrósa og vera með “uppbyggilega gagnrýni” en aldrei nöldra eða setja út á í leiðinlegum tón. Þú þarft að vera kurteis og vinaleg við vini hans og fjölskyldu en þó ekki svo mikið að þú sért að “daðra” eða fara á trúnó, einkamál eru einkamál og þeim á að halda fyrir sig. Ertu að ná þessu?
4. Skoðanir
Þú mátt hafa þínar skoðanir svo lengi sem þær eru ekki öfga; ekki öfga-feministi (bara smá, svona nóg til að vera ekki “kúguð”), ekki öfga-umhverfissinni (grænmetisæta sem á ekki bíl) og ekki öfga-íhaldssöm (kaldlynd). Skoðanir mega ekki vera byggðar á tilfinningum, skoðanir eiga að vera byggðar á rökum. Höfum það alveg á hreinu.
5. Kynlíf
Þú þarft að vera mjög góð í því og til í það þegar hann er til í það. Kvef, hálsbólga og blæðingar eru ekki afsökun. Kúr er forleikur, ekki ætlast til að kúra án þess að það endi í kynlífi (því þú ert svo HEIT að það er ekki BARA hægt að kúra hjá þér).
6. Peningar
Þú mátt ekki þéna meira en hann en átt samt að vera framakona, klár í þínu og borga helminginn af reikningum heimilisins burtséð frá tekjumismun. Ekki skipta þér af því í hvað hann eyðir sínu fé. Það er fullkomlega eðlilegt að eyða andvirði sólarlandaferðar í 1 dags veiðileyfi og nýja stöng.
7. Heimilisstörf
Þú sérð um þau og hefur gaman af en hann eldar og ryksugar endrum og eins í þágu jafnréttis – (minni aftur á kröfu 3.- stranglega bannað að nöldra).
Jæja, hvernig líst ykkur á? Einhver sem býður sig fram sem næsta eiginkona?
Ég hef reynt að segja honum að þessi kona sé ekki til en það sé kannski til kona sem er til í að þykjast vera svona fyrir Brad Pitt eða einhvern milljarðamæring?
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.