Pjatt.is tekur á móti nafnlausum lesendabréfum um allt á milli himins og jarðar. Eina skilyrðið er að textinn sé nokkuð vel skrifaður og að ekki sé hægt að rekja persónur fólks til skrifanna þar sem við búum í litlu landi. Pósta má senda í gegn um FB hjá með því að smella á skiló hnappinn efst til vinstri. 100% trúnaður.
Ég hef í nokkurn tíma haft það fyrir sið að eyða úrkulnuðum sénsum af vinalistanum mínum á facebook.
Ég byrjaði á þessu eftir að ég fór í fyrsta og eina skiptið full á Facebook og skrifaði langt og tilfinningaríkt bréf til stráks sem ég var mjög skotin í en þurfti samt sem áður að hætta að hitta.
Ég gat ekki hugsað mér að upplifa skömmina sem fylgdi því að hafa skrifað þetta bréf í hvert skipti sem ég sá hann poppa upp á veggnum hjá mér (hann var/er mjög aktífur á facebook) og þegar ég hugsaði út í það fannst mér líka tilgangslaust að hafa hann á facebook þar sem það var ekkert á planinu að hafa nein frekari samskipti við hann, svo ég eyddi honum út.
SÉ EKKI TILGANGINN
Ég heyrði seinna að hann hefði eitthvað hlegið að þessu en þetta hafði bara ekkert með hann að gera, ég var bara að gera það sem mér fannst þægilegast í stöðunni – sem var að eyða honum út.
Það sem ég lærði fyrst og síðast af þessu var auðvitað að að fara aldrei aftur full á facebook og ég hef staðið við það.
En ég ákvað líka að halda í þennan vana að eyða út þessum fyrrverandi-eitthvað strákum og mér hefur þótt þetta góður vani, einu strákarnir sem ég hef haldið inn á síðunni minni eru þeir sem ég hef áhuga á að halda í sem vini mína.
Ástæðan fyrir því að ég eyði þessum strákum út er ekki sú að ég sé svo niðurbrotin að ég næði mér ekki eftir slitin án þess, heldur er hún aðallega sú að ég sé ekki tilganginn með því að hafa þá á vinalistanum mínum þegar engin plön eru um það að hafa samskipti við þá í framtíðinni en það er auðvitað líka af því þegar einhver sárindi fylgja slitum þá dregur ekkert úr þeim þegar andlitið á viðkomandi poppar í sífellu upp á veggnum hjá mér og ég er líka alltaf jafn þakklát fyrir að hafa eytt þessum annars ágætu (í flestum tilvikum) mönnum út af Facebook þegar stalker-þarfirnar grípa mig og mig langar að fara að njósna.
VÍSINDALEGA SANNAÐ
Ég rakst svo á rannsókn um daginn sem styður þetta athæfi mitt en í henni er bent á að það sé í raun betra þegar sambönd, skot eða hjásofelsi eða hvað sem fólk kallar þetta enda, að eyða viðkomanddi aðila út af facebook til þess að tryggja að hann minni ekki stöðugt á sig.
Áður höfðu rannsóknir bent til þess að veraldlegt samband við fyrrverandi maka geti haft slæm áhrif á tilfinningalegt ástand og með þessari rannsókn kemur í ljós að facebook-samband hafi líka slæm áhrif á tilfinningar okkar.
Það kom ennfremur út úr rannsókninni að þeir sem halda sambandi við fyrrverandi maka í gegnum facebook, hvort sem það er með því að fylgjast með honum/henni í gegnum aðgang vina sinna eða sinn eigin eiga erfiðara með að komast yfir slitin, upplifa fleiri neikvæðar tilfinningar, komast ekki eins auðveldlega yfir kynferðislega löngun þegar kemur að makanum eða kærustunum fyrrverandi og taka ekki út eins mikinn persónulegan vöxt og þeir sem loka fyrrverandi maka sína út úr lífi sínu, á allann hátt sem það er hægt.
Við verðum samt auðvitað að passa að eyða mannskapnum ekki of snemma af listanum… það gæti verið einum of vandræðalegt að senda skotinu vinabeiðni, eftir að hafa eytt honum/henni út í einhverju dramatísku pirringskasti.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.