Ef þú ert ein eða einn af þeim sem eru í leit að lífsförunaut og hvorki gengur né rekur í þeim efnum… staldraðu þá við og lestu þessi FENG SHUI ráð sem gætu eflaust hjálpað þér við að koma hlutunum í gott lag.
FENG SHUI eru aldagömul kínversk fræði sem ganga út á að raða hlutum rétt upp á heimilum þannig að orkan þar inni haldist í fínu jafnvægi.
Það er lítið mál að nota tæknina til að rusla út úr svefnherberginu til dæmis – hreinsa út allt gamalt dót og minningar frá fyrri samböndum og bjóða um leið velkomið eitthvað nýtt inn í líf þitt.
HREINSUN Í SVEFNHERBERGINU
Hentu öllu út úr svefnherberginu sem minnir þig á fyrrverandi kærasta. Til dæmis gamlar ljósmyndir og málverk alveg sama hvað þau eru dýr og flott, gjafir – sérstaklega þær sem þið keyptuð saman á ferðalögum og fatnað sem þið versluðuð saman.
Hentu öllu sem minnir þig á fyrrverandi!
Mundu svo að kíkja undir rúmið líka, farðu í gegnum fataskápinn og kommóðuna og hentu öllu sem kallar fram minningar. Settu allt draslið í svartan plastpoka eða kassa og gefðu hann eða seldu. Því næst skaltu ráðast á rúmið þitt – hentu öllum gömlu lökunum og keyptu ný. Það ætti ekki að vera svo dýrt.
Ef þú hefur efni á því skaltu kaupa nýtt rúm (sér í lagi ef sambandið var langt) ef ekki skaltu að minnsta kosti snúa dýnunni við til að marka nýtt upphaf hjá þér. Svo skaltu fínkemba fataskápinn og losa þig við allt draslið sem þú aldrei notar – burt með þetta – gefðu eða seldu og þrífðu svo skápinn vel að innan.
AÐ KALLA TIL SÍN GOTT
Nú ertu búin að hreinsa svefnherbergið af því sem minnti þig á fyrri sambönd þín og þá er bara kominn tími á að kalla til sín eitthvað nýtt og gott. Það er mál til komið að gera svefnherbergið fallegt og lokkandi fyrir nýjan lífsförunaut.
Farðu og kauptu ný rúmföt – hafðu þau vönduð og hvorki of kvenleg né of karlmannleg. Veldu hlýja og sjarmerandi liti í mjúkum efnum eins og satin, gæðabómull og bættu kannski einum kodda á rúmið þitt.
Næsta skrefið er síðan augljóst… búðu til pláss fyrir nýja makann í fataskápnum. Farðu í gegnum skápinn þinn aftur og búðu til eina skúffu eða slá fyrir nýja makann. Færðu bara þín föt til.
RÓMANTÍKIN BOÐIN VELKOMIN
Að lokum skaltu gera svefnherbergið þitt örlítið rómantískara til að kynda upp fyrir nýja makann. Það er mjög auðvelt að setja rómantísk tákn á sérstaka staði í svefnherberginu: Veggurinn gengt rúminu, veggurinn sem þú sérð þegar gengið er inn í svefnherbergið og sambandshornið í svefnherberginu sem er hægra hornið á móti hurðinni inn í svefnherbergið. Settu rómantísk tákn á þessi þrjú svæði og bjóddu um leið rómantíkina velkomna inn í líf þitt.
Það er hægt að velja ósköp klassískar myndir af ástföngnu pari eða hjörtum. Það má líka setja hluti í pörum í þessi horn; tvö kerti, tvö blóm í vasa bara eitthvað í pari.
Vertu bara skapandi og jákvæð og hafðu þetta glaðleg tákn af pörum og áður en þú veist af… flýgur lítill feitlaginn Amor yfir höfði þér með spenntan boga.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.