Afbrýðisemi er eitt það hættulegasta sem við getum upplifað þegar kemur að samskiptum kynjanna.
Við könnumst allar við afbrýðisemi, þetta er ógeðsleg tilfinning. Ein sú versta sem Bella veit um a.m.k. Þegar við finnum fyrir afbrýðisemi brenglast tilfinningar okkar og við hugsum ekki rökrétt.
Flestir og ég undirstrika FLESTIR eru þannig að þeir vilja yfirleitt það sem þeir geta ekki fengið. Ef einhver hundsar okkur viljum við manneskjuna enn meir. Ef við sjáum manninn sem við vorum hrifnar af með annarri konu koma stundum upp tilfinningar sem voru horfnar áður og við viljum hann skyndilega aftur. Ekki satt? Skrítið.
Ég veit um samband sem að mínu mati er byggt á fölskum forsendum.
Stelpa og strákur eru bestu vinir…við skulum kalla þau Ísabellu og Rafn. Rafn er ástfanginn af Ísabellu en ekki öfugt. Hún hafði aldrei borið tilfinningar til hans og hreinlega engan áhuga á honum. Svona eins og gengur og gerist. Ísabella veit að Rafn er hrifinn af henni en lætur sem ekkert sé.
Vinkona stelpunnar sem við skulum kalla Líf, verður hrifin af Rafni og þau sofa saman. Þá skyndilega verður Ísabella yfir sig hrifin af Rafni. Klassískt dæmi um þegar afbrýðissemi breytir og brenglar tilfinningar okkar.
Persónulega finnst mér samband þeirra byggt á sandi. Ísabella og Líf eru ekki vinkonur í dag og Ísabella og Rafn eru í stormasömu sambandi sem líklegast mun ekki endast.
Við verðum að læra á okkar eigin tilfinningar. Hvenær eru tilfinningar sannar og hvenær eru þetta tilfinningar sem allt í einu eru komnar vegna þess að við sáum manninn sem við erum hrifnar af með annarri dömu?
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.