Orðatiltakið að konur séu konum verstar hefur lengi verið notað og sérstakir árekstrar virðast algengir milli okkar sem erum af sama kyni. Hvað ætli valdi þessu?
Fyrir það fyrsta vil ég leyfa mér að fullyrða að öfund spilar stórt hlutverk í leiðindasamskiptum milli kvenna. Hver er grennri, hver fær meiri athygli karlmanna, hver lítur “betur” út og hver er farsælli í samböndum, vinnu og námi?
Svo virðist sem einungis lítill hluti okkar sé fær um að samgleðjast eigin kynsystrum og leggja afbrýðissemina til hliðar, sýna virðingu, brosa skakkt og bíta í tunguna á okkur ef ósæmilegar hugsanir koma upp. Nei það er aldeilis ekki. Við slúðrum, rífumst, bítum og klórum.
Barist um strákana
Svo eru það karlmennirnir. Ó karlmennirnir! Við erum eins og villtar ljónynjur þegar kemur að hinu kyninu og rembumst oft við að láta þá taka eftir okkur en ekki hinni konunni. Þegar allt kemur til alls þá erum við dýr (ljónynjur) og lífið snýst um að finna sér maka og/eða fjölga sér. Munurinn á okkur og ljónynjunum er hinvegar sá að þær labba í burtu þegar karlinn velur sér aðra til að bera afkvæmi sín.
Samkvæmt minni reynslu virðist hinsvegar fátt eins heillandi fyrir okkur konurnar eins og þegar maðurinn sem við vildum eða hættum með áður er kominn í samband með nýrri og hvað þá með hring á baugfingur!
Ef við förum ekki á eftir honum í bókstaflegri merkingu eigum við það sumar til að leggja mikla orku í að spilla fyrir með athugasemdum, daðri, slúðri eða inngripi.
Svo tala ég nú ekki um ef einhleyp kona/stúlka stundar kynlíf án þess að vera í sambandi. Þá skal slúðrað!
Er þetta virðingarverð hegðun? Veltum þessu aðeins fyrir okkur.
Ég get sagt fyrir minn part að ég vil ekki vera “þessi” kona. Og ég held að þegar við skoðum málið nánar þá vilji það engin okkar. Það eru sjálfsögð mannréttindi konu að fara í gegnum lífið, stolt og með velgengni án þess að kynsysturnar séu á einn eða annan hátt að reyna að skemma fyrir henni. Stundum gerum við okkur ekki einusinni grein fyrir því að við erum að því, og þessvegna er gott að líta í eigin barm af og til. Erum við afbrýðissamar? Erum við að miða okkur við aðrar?
Batnandi fólki er best að lifa. Á nýju ári ættum við að einbeita okkur að því að verða betri manneskjur og hætta að miða okkur við kynsystur okkar. Reyna frekar að samgleðjast og vera góðar við hvor aðra. Samstaða og samhugur reynast alltaf best.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.