Nú þegar stefnumótamenning okkar íslendinga hefur færst aðeins nær siðmenningunni er tilvalið að koma hér með nokkur heilræði fyrir karlmenn á hinum svokölluðu ‘deit buxum’.
Yfirleitt er það karlinn sem býður á fyrsta stefnumótið enda hefur myndast ágætis hefð fyrir því og líklegast af góðri ástæðu (sjá hér). Þetta er þó ekki algilt og sérstaklega ekki hérlendis enda kvenþjóðin á eyjunni nokkuð fræg fyrir frumkvæði sitt í ástarmálum, stundum svo að sumum óaar við og segja íslenska karla jafnvel hafa haft það “of gott”.
En hvað um það. Hér eru átta heilræði sem ættu að gagnast karlkyninu (og eflaust konum líka), bæði á fyrsta stefnumóti og ef lengra er haldið. Þetta er auðvitað ekki meitlað í stein en ráðin eru fengin víða, bæði frá fróðum og lífsreyndum dömum sem og sérfræðingum í stefnumótamálum. Vonandi nýtast þau vel og tilvalið að senda þau áfram á einhleypa bræður, feður, vini og vandamenn sem eru kvenmannslausir og í leit að hinni einu sönnu.
1. Ekki ræða um fyrrverandi, einbeittu þér að því að hlusta
Þegar þú mætir á fyrsta stefnumót þá á það helst að vera skemmtilegt, ef framhald á að vera á þessu ævintýri. Þú skalt ekki byrja á að þruma um hvað þín fyrrverandi er búin að vera erfið gegnum skilnaðinn, hvaða skoðanir þú hefur á veiðigjöldunum eða hvort þér finnst að það eigi að banna hjónabönd samkynhneigðra aftur. Reyndu frekar að fá hana til að segja sögur af sjálfri sér og prófaðu að hlusta vel á hvað hún hefur að segja. Almennt hafa karlar mjög gaman af að tala um sjálfa sig, þá sér í lagi á stefnumótum, en prófaðu að gefa henni orðið, segja frá sjálfri sér, skoðunum sínum og reynslu og hlustaðu með sperrt eyru meðan þú hallar þér fram á borðið.
2. Veldu stað þar sem þið verðið ekki fyrir ónæði
Ekki draga hana inn á uppáhalds staðinn þinn, þar sem þú kemur mjööög oft (einhleypir karlar borða oft úti) og þekkir fólk á næstu borðum. Reyndu að velja veitingastað þar sem borðin eru nokkuð vel frá hvort öðru og þið verðið ekki fyrir miklu áreiti frá öðrum. Hann má líka endilega vera svolítið kósý, það er að segja ef þið farið á stefnumót um kvöld. Ef hádegið verður fyrir valinu er gott að hafa svipaðan hátt á, það er að segja velja stað sem þið hvorugt stundið að staðaldri. Ísland er svo lítið.
3. Vertu þú sjálfur
Ef þú ert að fara á blint stefnumót, sem vinir þínir hafa planað, eða með manneskju sem þú kynnist á netinu, skaltu passa að vera algjörlega þú sjálfur áður en þú mætir á svæðið. Það er að segja, ekki gefa upp ranga mynd af því hver þú ert áður en þú svo mætir á stefnumótið. Vinkona mín hafði lengi talað við mann á netinu sem sagðist vera um 20 kílóum léttari en hann var, reyklaus og hófsamur en þegar hann svo mætti á staðinn var hann með bumbu og á öðrum Winston pakkanum yfir daginn. Auðvitað langaði hana mest að skríða undir borðið enda upplifði hún ákveðin vörusvik.
4. Ekki vera of ákafur
Það er enginn mikið fyrir eltihrella. Þó að þér finnist hún alveg æðisleg skaltu ekki tapa þér alveg. Ekki dúkka upp heima hjá henni án þess að vera búinn að hringja á undan. Ekki senda sms í gríð og erg. Ekki vera “of”. Haltu bara ró þinni og haltu áfram að deita og vera sætur og skemmtilegur.
5. Ekki synda á móti straumnum
Ekki halda áfram að hitta konu bara af því þið voruð byrjuð á því. Þig þarf að langa, raunverulega langa að hitta hana áfram, og okkur auðvitað líka. Allt of margir halda áfram að hittast jafnvel þó að allt mæli gegn því að sambandið komi til með að verða skemmtilegt. Ef þú finnur á þér að þetta sé ekki að fara að ganga þá skaltu bara drífa þig. Kannski ekki akkúrat meðan þú ert á veitingastaðnum en ekki fara lengra ef engin ástæða er til þess.
6. Hrósaðu henni
Lífið er voðalega flókið nú til dags þegar ekki má segja allskonar orð og allt verður að vera baðað í pólitískri réttsýni en sumt á þó bara alltaf við. Eitt af því er hrósið. Konum og körlum finnst gott að fá hrós. Ef þér finnst konan falleg, þá skaltu segja það, ef þér finnst hún fyndin og skemmtileg, þá skaltu segja það og ef hún er góð í bólinu, þá máttu til með að segja henni það!
7. Ekki vera á tímaáætlun eða játa of snemma
Þolinmæði er alltaf, ég endurtek ALLTAF, mikil dyggð þegar kemur að ástarmálum og þá sér í lagi í tilhugalífinu. Ekki reyna að vera í þessu sambandi eins og þú sért búin að vera með stefnumótunarráðgjafa yfir rúminu þínu sem ákveður hvenær á að flytja inn saman, hvenær á að kyssast fyrst og svo framvegis. Leyfðu hlutunum að gerast á eigin hraða og ekki stressa þig á þessu. Ekki heldur segja henni að þú elskir hana, fyrsta mánuðinn sem þið eruð saman. Það er bara skrítið.
8. Ekki spá í aðrar konur á meðan
Fyrsta skrefið er að vera ekki að rækta sambönd við aðrar konur á meðan þú ert að ‘deita’. Áttaðu þig líka á því að þú ert ekki að fara að vera ‘vinur’ þinnar fyrrverandi. Reyndu að einfalda tilveruna og mundu að það er bara pláss fyrir eina ‘First Lady’ í lífi hvers manns. Ef þú ert sannfærður um að þú og sú sem þú ert að hitta getið átt góðar stundir saman í framtíðinni, þá skaltu hætta samskiptum við allar aðrar dömur og einbeita þér að henni. Annars ertu að grafa undan því sem þú ert að reyna að byggja upp á sama tíma. Það er ekki skynsamlegt og þar fyrir utan býr það til hættu á miklu vantrausti ykkar á milli sem gerir sambandið svo að segja sjálfdautt með tímanum, eða að minnsta kosti ekki gott.
Gangi þér nú vel!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.