Fyrstu kynnin sem verða aldrei endurtekin
- Hvernig kemur þú fyrir dags daglega?
- Hvernig kemur þú fyrir þegar þér er mikið í mun að koma vel fyrir?
- Hvernig kemur þú fyrir þegar þú ert að hitta einhvern „mikilvægan“ í fyrsta sinn?
Það er oft sagt að fyrstu kynni verði aldrei endurtekin og þess vegna skipti svo miklu máli að koma vel fyrir þegar okkur finnst það mikilvægt. En – hvernig getum við metið hvenær stóra stundin er?
3 SEKÚNDUR
Jú, þegar við sækjum um vinnu er mikilvægt að koma vel fyrir. Þegar við ætlum út að skemmta okkur pjattrófumst við og förum í okkar fínasta – til að líta vel út og koma vel fyrir. Ef við erum að fara á stefnumót pjattrófumst við alveg sérstaklega og erum óendalega lengi að velja hvernig við ætlum að vera til fara. Allt fyrir útlitið …….. en okkur þarf líka að líða vel í því sem við puntum okkur með.
Sekúndurnar þrjár sem ekki er hægt að endurtaka. Fyrstu kynni taka aðeins 2 – 3 sekúndur – og það er enginn REPLAY takki sem er hægt að ýta á. Þetta er nú hálf óréttlátt, en hér er ekkert sem er hægt að stroka út, rekja upp, skrúbba af, láta eins og hafi aldrei verið til staðar! Fyrstu kynnin eru þarna bara og verða þar áfram hvort sem þér líkar betur eða verr.
LENGI BÝR AÐ FYRSTU GERÐ
Þegar einhver hittir þig í fyrsta sinn – og tekur eftir þér – þá er hugur viðkomandi ansi hreint snöggur að meðtaka ákveðin hrif, augun nema ákveðna mynd af þér sem verður að ákveðinni ímynd í huga þess sem hitti þig. Það er alls ekkert víst að viðkomandi tengi hina sönnu þig við ímyndina, til þess þyrfti hann/hún að kynnast þér, vita hver þú ert í raun og veru og hvernig þú ert í viðmóti, fasi og samskiptum.
ILMURINN
Skinhrifin verða ekki aðeins í gegnum augun. Það sem hefur oftast næst mest áhrif er hvers konar ilmur eða lykt viðkomandi finnur af þér – enda hafa ilmvatns- og rakspíraframleiðendur nýtt sér það vel í gegnum tíðina. Hér er það ekki aðeins sjálfur ilmurinn sem skiptir máli, heldur líka hve sterkur hann er. Ilmfræðin geta reynst vandmeðfarin því það sem einum þykir góður ilmur getur annar skynjað á allt annan hátt.
HANDABANDIÐ
En það er ekki allt fengið með fáguðu útliti, hátísku fatnaði og dýrum snyrtivörum. Framkoma þín og sjálfsöryggi getur haft mikil áhrif. Segjum sem dæmi að þú þurfir að heilsa ókunnugum aðila sem þú hefur ekki hitt áður. Þú þarft að taka í hendina á viðkomandi og heilsa með handabandi. Þá er næsta spurning; Hvernig heilsar þú ókunnugum? Hvernig heilsar þú almennt með handabandi?
Eitt sinn kom til mín kona sem ég ætlaði að heilsa með handabandi. Konan horfði nær stöðugt niður fyrir sig síðustu metrana til mín og horfði áfram niður þegar við heilsuðumst með handabandi. Þegar ég rétti konunni höndina til að heilsa henni þá rétt snerti hún hana með sinni. Við höfðum aldrei hist áður. Hvað sagði þetta mér um líðan konunnar? Hvað getur svona viðmót sagt þeim sem er að hitta þig í fyrsta sinn?
ÆFINGIN SKAPAR MEISTARANN
Æfðu þig í að heilsa fólki, taka mátulega fast í hendi þess sem þú heilsar og horfðu framan í viðkomandi. Leitaðu eftir að ná augnsambandi. Þetta getur skipt miklu máli. Ef þér finnst erfitt að þurfa að heilsa fólki – og kynna þig, þá skaltu endilega æfa þig í því. Þér finnst það kanski kjánalegt að vera að æfa síg í að heilsa fólki – en það er það alls ekki.
Hvaða eiginleika finnst þér að það fólk búi yfir sem þú telur vera mjög sjálfsöruggt? Hvernig er framkoma þess? Hvað svo sem það er sem þú tekur eftir í fari þessa fólks, þá er það að öllum líkindum lært atferli. Lært atferli er eitthvað sem þú getur líka tileinkað þér.
Gangi þér vel!
Jóna Björg Sætran, M.Ed., ACC markþálfi www.blomstradu.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!