Það er ekki endilega öllum gefið að kunna sig á mannamótum.
Fyrir mörgum, og þá kannski sérstaklega okkur íslendingum, getur það flækst fyrir að kunna alla mikilvægu ‘mannasiðina’ sem gera mann að góðum gesti og skemmtilegum borðfélaga.
Hér eru tíu heilræði sem ættu að einfalda þér svolítið lífið næst þegar þú ferð í formlegt boð á vegum vinnunnar, afmælisveislu með nýjum vini, í opnun eða á kynningar þar sem margir koma saman og þekkjast ekki endilega mjög vel.
1. Undirbúðu þig
Meðan þú ert að gera þig til fyrir veisluna eða í bílnum á leiðinni er ágætt að undirbúa sig aðeins. Rifja upp bóka eða kvikmyndagagnrýni sem þú hefur lesið og enn betra, rifjaðu upp það sem þú veist um manneskjuna sem býður þér til veislunnar. Til dæmis hvort hún eða hann hefur gaman af að fara á skíði, stunda sjósund, skoða myndlist eða ganga á fjöll. Þá er svo auðvelt að hefja spjall um t.d.hvaða tind eigi að klífa næst eða hvaða sýningu eigi að sjá næst.
2. Að kyssa eða ekki kyssa?
Það er ekki langt síðan íslendingar tóku upp á því að kyssast og faðmast þegar við hittumst. Hér áður fyrr vorum við eins og ‘finnar’ svona frekar stífar týpur en blessunarlega er þetta aðeins að mýkjast upp. Grundvallarreglan er að heilsast með handabandi en ef þú þekkir manneskjuna vel, og henni er vel við það, er gott að smella einum á kinn. Að sama skapi skaltu ekki hörfa undan ef einhver vill smella á þig einum og ef þú hefur einu sinni heilsað með kossi er gott að halda því við því þegar þú hittir manneskjuna næst, annars gæti hún eða hann upplifað höfnun.
3. Leggðu nöfn á minnið
Fólk á það til að gleyma nöfnum ansi hratt þegar við erum kynnt fyrir hvort öðru í partýum og veislum en gerðu þitt besta til að leggja nöfnin á minnið. Hægðu á þér og vertu meira í núinu rétt á meðan farið er yfir nöfnin. Tengdu þau við eitthvað sem þú manst örugglega svo að þú þurfir ekki að spyrja aftur. Það er gott að muna nöfn.
Ef þú hinsvegar gleymir nafni eftir að hafa verið kynnt skaltu bara kurteisislega spyrja aftur og segjast ekki hafa tekið nógu vel eftir, þetta skilja flestir. Einnig er hægt að spyrja bara aðra sem þú þekkir betur í veislunni svo lítið beri á.
4. Ekki halda aftur af þér
Ekki vera óþarflega stuttorð ef fólk gefur sig á tal við þig í boði. Til dæmis ertu spurð að því hvað þú starfir við, þá er gott að svara hvar og hversu lengi þú ert búin að sinna starfinu. Hvort þú hefur gaman af og svo framvegis bara passa sig að fara ekkert yfir strikið… Einnig er hægt að segja frá áformum um frí fyrir sumarið og öðru skemmtilegu sem er á döfinni.
5. Leyfðu viðmælandanum að njóta sín
Fólki finnst mjög gaman að tala um sjálft sig svo það er gott að vera góð í að hlusta. Ef fólk hefur t.d. verið á málverkasýningu eða leikriti er gott að spyrja hvað þeim fannst best við verkið, hvernig leikararnir stóðu sig og þ.h. Það er líka hægt að fá fólk til að brjóta ísinn með því að minnast á flík sem þau eru með eða skartgrip, hvort hann hafi sérstaka merkingu og þessháttar.
Þegar þú kynnir fólk er mjög gott að bæta við hvað manneskjan gerir. T.d. “Þetta er Kristín, hún vinnur sem kennari í Hagaskóla og þetta er Viðar, hann var að flytja hingað frá Akureyri með manninum sínum og hundum.” Þetta gerir tenginguna meiri og þá verður auðveldara að muna nafnið.
6. Ef þú ert alveg að verða uppiskroppa með umræðuefni…
…þá er ágætt að tala bara um það sem er að gerast í kringum þig. Til dæmis veitingarnar, tónlistina, röðina í matinn og svo framvegis. Ef fólk tekur þátt í ‘tjitt tjattinu’ þá eruð þið komin eitthvað áleiðis. Önnur leið sem aldrei bregst er að spyrja viðkomandi hvernig hann/hún tengist gestgjafanum og taka það svo þaðan.
7. Þögn er ekki endilega vandræðaleg
Ekki fara í ‘panikk’ þó að fólk svari ekki alveg strax. Þögnin er sjaldnast eins löng og þú heldur. Mundu að fólk þarf kannski aðeins að melta það sem þú segir við það og stundum er bara viðeigandi að segja ekkert. Ef þú hefur á tilfinningunni að hin manneskjan sé að reyna að koma sér í burtu skaltu bara leyfa henni það annars er að grípa í einhver af ráðunum hér að ofan.
8. Kynntu fólk fyrir hvort öðru
Það er enn ekki komið almenninlega í menningu íslendinga að kynna fólk fyrir hvort öðru.
Við erum kannski tvær að ganga niður laugaveg þegar ein hittir einhverja sem hún þekkir og á meðan stendur vinkonan vandræðaleg álengdar og hlustar á samtal sem henni er ekki boðið að taka þátt í.
Þetta er auðvitað eitthvað sem þarf að bæta. Þú ættir alltaf að kynna fólk fyrir hvort öðru.
Þegar þú kynnir fólk er mjög gott að bæta við hvað manneskjan gerir. T.d. “Þetta er Kristín, hún vinnur sem kennari í Hagaskóla og þetta er Viðar, hann var að flytja hingað frá Akureyri með manninum sínum og hundum.” Þetta gerir tenginguna meiri og þá verður auðveldara að muna nafnið.
Ef þú svo allt í einu manst ekki hvað önnur manneskjan heitir þá er gott að kynna þá sem þú þekkir og gera einhverskonar bendingu til hinnar sem mun auðvitað átta sig á að þú gleymdir þér og fríska upp á minnið fyrir þig.
9. Það er alltaf einhver leiðinlegur í veislunni
Það er bókað að þú átt alltaf eftir að rekast á einhverja týpu í boðinu sem er ekki endilega sú skemmtilegasta.
- Týpa 1 er þessi sem þú hefur margoft hitt áður á allskonar viðburðum en lætur alltaf eins og hann/hún hafi aldrei séð þig áður á ævinni. Best er að heilsa bara manneskjunni með því að nikka höfðinu og halda svo bara áfram.
- Týpa 2 er þessi sem kemur of nálægt þér, treður sér inn fyrir þitt persónulega rými (eins og í ópal auglýsingunum). Þá er gott að taka skef aftur á bak og halda drykknum sínum bara þannig að það er ekki hægt að koma nær.
- Týpa 3 getur ekki hætt að tala um sjálfa sig og spyr þig bara aldrei út í neitt um sjálfa þig. Ef fólk er svo leiðinlegt er gott að reyna bara að koma sér í burtu en til þess eru nokkrar aðferðir…
10. Flótti
Byrjaðu á að nota sögnina að VERÐA. Ég ‘verð’ að tala við þessa konu. Ég ‘verð’ að hringja smá símtal núna. Ég ‘verð’ að fá mér að borða, hef ekkert borðað í allan dag… og svo framvegis. Til að virka ekki dónaleg er góð hugmynd að rifja eitthvað upp úr samtalinu áður en þú kveður, t.d. segja “Gaman að heyra þetta um bústaðinn ykkar, hlakka til að heyra hvernig þetta þróast” en láta sig svo hverfa. Ef þú lendir í miklum vandræðagangi með að losna út úr samtali getur verið gott að geta sent maka eða vini einhverskonar boð um að koma að “bjarga” sér. Til dæmis með því að fara að dansa eða skreppa saman afsíðis af því þið ‘verðið’ að ræða eitthvað mál.
Vonandi gagnast þessi heilræði. Samskipti eru það mikilvægasta í lífi okkar og ef fólk er nokkuð sleipt í þeim má reikna með að vegir lífsins verði þeim færari.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.