Við höfum flest lent í því að eiga hræðilegan yfirmann, hvort sem það er einhver sem kemur illa fram við okkur, er óhæfur eða einhver sem klípur okkur í rassinn þá er algjörlega ömurlegt að lenda á hræðilegum yfirmanni.
Undirrituð er ein þeirra sem hefur lent í þvi að eiga hræðilegan yfirmann. Ég var ráðin af karlmanni en með honum í stjórn var kona sem nýlega hafði verið ráðin, töluvert eldri en ég og með annað sérsvið.
Ég er vel menntuð og hef margra ára reynslu í starfi en síðustu ár hef ég gengt ábyrgðar- og stjórnunarstöðum. Ég var ráðin inn í fyrirtækið vegna sérkunnáttu en engu að síður treysti konan mér ekki fyrir verkefnum mínum, vildi stýra mér frá A-Ö, tók vinnuaðferðir mínar og betrumbætur ekki til greina, talaði niður til mín og annarra samstarfsfélaga, kenndi mér um mistök sín og seinkanir á verkum, ritstýrði tölvupóstsamskiptum mínum og kallaði mig útávið „stúlkuna á skrifstofunni“ þegar ég var í raun í stjórnendastöðu.
Engin innan fyrirtækisins skildi hvers vegna hún kom svona illa fram við mig og ekki hafði hún neina ástæðu til að vantreysta mér svo skýring þeirra var að henni væri ógnað. Ég væri með betri menntun en hún, góða reynslu, ung og falleg.
Hvað sem það var þá breytti þessi hræðilegi yfirmaður draumastarfi mínu í martröð og ástæðan fyrir því að ég minnist á þetta er tvennt sem hefur fengið mig til að hugsa undanfarið.
Kunningjakona mín var nýlega ráðin í krefjandi og ábyrgðarmikið starf enda er hún afskaplega vel menntuð og hæf en þegar birt var tilkynning um að hún hafi hlotið þetta starf þá voru fleiri sem hrósuðu henni fyrir hvað hún leit vel út á myndinni sem fylgdi tilkynningunni heldur en þeir sem óskuðu henni til hamingju með árangurinn (hefði það gerst væri hún karlmaður?).
Maður sagði mér nýlega að honum fyndist ég sætari með hárið tekið frá enninu og afhverju ég væri að fela mig undir síðum topp og ég svaraði: „Stundum langar mig alls ekki að vera sæt! Ég vil frekar vera tekin alvarlega heldur en að vera sæt!“
Í minni starfsgrein hef ég aldrei verið ráðin í vinnu vegna þess að ég er sæt en þó hef ég heyrt það sagt um aðrar í svipuðum stöðum að þær hafi hlotið þær vegna þess að þær væru sætar, svæfu örugglega hjá yfirmanninum eða svipaðar fáránlegar skýringar.
Afbrýðissemi er eitur sem bitnar verst á þeim sem ekki eiga það skilið.
Að mínu mati þurfum við „sætu“ konurnar að berjast enn harðar fyrir því að vera teknar alvarlega og ráðnar í ábyrgðarfullar stöður en þær sem ekki „ógna“ kynsystrum sínum með útliti sínu. Svo ég tali nú ekki um karlmennina sem ekki vilja lenda milli tannanna á fólki vegna þess að þeir réðu aðlaðandi konu í vinnu.
Ef við viljum jafnrétti þá ættum við kanski að byrja á því að koma jafnt fram við hvor aðra!
Að samgleðjast er afbrýðissemi sem hefur farið með bænirnar sínar.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.