Vertu þú sjálf þegar þú byrjar að kynnast nýjum manni. Ef þú setur á svið eitthvað leikrit, býrð til persónu sem þú telur að muni þóknast manninum sem þú ert skotin í, er líklegt að sambandið þróist aldrei á rétta vegu.
Margar konur, og menn líka, gera þessi mistök í upphafi sambands. Reyna að verða manneskjan sem hún heldur að hinn aðilinn vilji að hún sé. Sumar ganga svo langt að gera sér upp áhugamál. Þykjast hafa áhuga á tölvuleikjum, golfi, þungarokki, verðbréfum… allt eftir því hvernig týpu hún heldur að hún sé að deita.
Stundum detta báðir aðilar í að reyna að búa til týpuna sem það heldur að hitt vilji vera með. Þá er nú heldur betur allt í rugli.
Stína þykist kannski elska golf af því hún reiknar einhvernveginn út að maðurinn sem hún er að deita hafi rosalegan golf áhuga. Hann heldur að hún haldi að hann sé svo mikill golfmaður að hann fer að gera sér upp áhugann og svo leiðist báðum á golfvellinum og langar heim að horfa á video.
Er þá ekki mikið betra að vera bara maður sjálfur og finna sér svo maka sem ekkert þarf að þykjast við? Fyrir utan hvað það er óþægilegt að geta ekki verið frjáls í eigin skinni og vera alltaf eitthvað að þykjast.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.