Andlegt ofbeldi í samskiptum getur verið margslungið og ekki allir átta sig á hvernig birtingamyndirnar geta verið.
Prófum að spyrja nokkurra áleitinna spurninga sem gæti reynst erfitt eða krefjandi að svara:
- Hefur þú “frelsi” til að tjá hug þinn og skoðanir þínar – eða samþykkir þú skoðanir annarra þegar þú telur að það komi sér betur “til að halda friðinn”?
- Ert þú spurð álits – eða er þér sagt hvernig best sé að hafa hlutina?
- Ert þú tekin inn í samræður eða tala hinir í hópnum mest sín á milli, horfa jafnvel ekki til þín þegar þeir spjalla?
- Er hlustað á þig, færð þú að tala út eða er oft gripið frammí fyrir þér?
- Hefur þú upplifað að annar tekur upp þráðinn frá þér þar sem þú ert rétt svo byrjuð að segja frá einhverju og heldur áfram með það sem sína eigin frásögn og hvernig líður þér við það?
- Hvað ef sá sem tekur af þér orðið breytir algjörlega um umræðuefni þannig að þú dettur algjörlega út úr samræðunum?
- Gerist þetta helst í fjölskylduboðum, veislum, á vinnustaðafundum, í kunningjahópnum – eða jafnvel í samskiptum við maka þinn?
- Kannast þú við svona yfirgangssemi og hroka í framkomu annarra í þinn garð og hvernig líður þér með þetta?
- Ertu búin að gefast upp, hætt að reyna að segja hug þinn eða koma með tillögur?
Ef þetta er raunin þá er kominn tími á breytingar. Staldraðu aðeins við, hertu upp hugann og hættu að leyfa öðrum slíkan yfirgang, frekju og lítilsvirðingu í þinn garð því þó það sé auðveldara núna að láta líta út sem þér standi á sama þá fer það ekki vel með sálartetrið þitt til lengdar og þú brennur smá saman út.
Þú átt rétt á að fá að njóta þín
Ef þú getur það ekki ein, leitaðu þá stuðnings hjá öðrum. Oft er það líka svo að fólk gerir sér ekki almennilega grein fyrir að það sé að lítilsvirða aðra með svona framkomu og margir verða því fljótir að breyta framkomu sinni til betri vegar sé þeim bent á þetta. Því miður eru aðrir sem beita svona framkomu markvisst í þeim tilgangi að stjórna öðrum, og brjóta niður til að geta haft þá í hendi sér. Þá eru málin öllu erfiðari viðfangs og miklu erfiðara að brjótast undan slíku mynstri en ekkert er þó ómögulegt! Þú átt þitt líf og þú átt rétt á því að fá að njóta þín.
Maki sem þegir tímunum saman og svarar alls ekki þegar á hann er yrt beitir ef til vill þögninni vísvitandi til að sýna hinum aðilanum lítilsvirðingu en það getur líka vel verið að það liggi allt aðrar ástæður að baki. Hver eru ósjálfráð viðbrögð þín? Hvaða hugsanir fara í gegnum huga þinn?
Hvernig líður þér með þögnina?
Sumir nota þögnina meðvitað sem áhrifamikið tæki í margvíslegum samskiptum, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt og það er óhætt að segja að sjálf þögnin geti tjáð meira ein ótal mörg orð. Þögnin getur verið yndisleg en hún getur líka verið sem martröð. Vonandi átt þú góðar minningar um mögnuð augnablik í þögninni, minningar sem þú getur leitað í þegar þú þarft að ná að slaka vel á til að ná áttum og endurhlaða batteríin. Oft er talað um að það sé merki um sanna vináttu og væntumþykju þegar tveir einstaklingar geta þagað saman – og liðið vel með það. Það eru orð að sönnu en þögnin getur líka sært og valdið áratuga skaða á sál þess sem er afskiptur.
Hefur þú tekið eftir því hvað þögn getur orðið þrúgandi í samskiptum?
Dæmi um neikvæða þögn er t.d. þegar þögnin er notuð til að refsa öðrum hvort heldur sem um er að ræða barn eða fullorðinn einstakling. Barn sem hefur t.d. gert eitthvað sem er foreldrunum á móti skapi og er því látið „eiga sig“, ekki yrt á það og því heldur ekki svarað þrátt fyrir að barnið sækist ítrekað eftir athygli. Kannast þú við slíkt úr þinni æsku? Ef svo er, hvernig leið þér þá og hvaða áhrif heldur þú að þetta hafi haft á samband þitt við foreldra þína? Maki sem þegir tímunum saman og svarar alls ekki þegar á hann er yrt beitir ef til vill þögninni vísvitandi til að sýna hinum aðilanum lítilsvirðingu þó það geti vel verið að það liggi aðrar ástæður að baki.
Andlegt ofbeldi
Þögn, frammígrip og það að hunsa aðra í samskiptum getur þróast út í andlegt ofbeldi. Veltu þessu öllu aðeins fyrir þér og spurðu sjálfa þig hvort það geti verið að þú sjálft eigir það til að haga þér á þennan hátt; grípa frammí, hunsa eða þegja. Er það meðvitað – eða gæti það verið ósjálfrátt? Hvað ætlar þú að gera í málunum til að láta aðra hætta að koma svona fram við þig – og til að forðast að koma svona sjálf fram við aðra?
Prófaðu að svara spurningunni hér fyrir neðan og sjáðu hversu margir svara á sama veg. Ef þú svarar henni játandi skaltu ekki bíða með að gera eitthvað í málinu. Þú átt skilið að eiga gott líf og góð samskipti við aðra og aðrir eiga skilið að þú komir vel fram.
[poll id=”54″]
Jóna Björg Sætran, M.Ed., ACC markþjálfi www.coach.is www.blomstradu.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!