Það ert ekki þú heldur ég!
Hefurðu heyrt þessa setningu?
Ég á yndislegan “lítinn” frænda sem er rétt um tvítugt. Hann er búinn að vera að deita stelpu í nokkra mánuði. Hann kom til mín um daginn og sagðist vera að hugsa um að slíta sambandinu en vildi alls ekki særa stelpuna.
Setningin sem hann ætlaði að segja var:
“Sko…það ert ekki þú….heldur ég! Þú ert alveg frábær, sæt og skemmtileg. Ég bara uhumm…sko…kann ekki að vera í sambandi.”
Sem stóra frænka sussaði ég og sveiaði og bað hann í guðsbænum að segja bara sannleikann.
Bullið
Þegar fólk er að slíta samböndum og lýgur einhverja vitleysu til að bjarga andlitinu gerir það hreinlega bara enn verra. Hinn aðillinn situr sem eitt stórt spurningamerki í framan í marga daga á eftir. Sumar konur geta líka orðið mjög reiðar við að heyra eitthvað bull. Fá rauða díla í framan og hætta algjörlega að heyra allt sem er skynsamlegt að hlusta á. Hugsa um það sem maðurinn gerði, og gerði ekki, á meðan þau voru saman og á því stigi er getur kona orðið mjög hættuleg!
Sannleikurinn
Ég sagði við frænda minn að það væri betra að segja hlutina bara hreint út. “Ég fíla þig ekki” eða “Við eigum ekkert mjög vel saman.” “Það vantar eitthvað í ‘kemestríuna’ okkar” eða…” Ég er bara ungur og vitlaus og langar að prófa annað, lifa lífinu og vera til. Þannig að það hentar mér bara alls ekki að vera í sambandi. Mér þykir leiðinlegt að þú upplifðir sambandið öðruvísi en ég og vona að þú finnir hamingjuna fljótt aftur.”
All by my self
Þegar sambönd enda er það oftast þannig að annar aðillinn liggur í sárum á eftir. Það er engin leið til að fara fínt í það, reyna að mýkja sambandslitin og vona að hinn aðillinn hoppi trallandi um á eftir með sleikjó í annari og popp í hinni.
Það er bara ekki þannig!
Yfirleitt er það annar sem endar í sorg með tissjú og vælulög á fóninum.
En það sem ég vildi sagt hafa, í stuttu máli – Segðu sannleikann, það er miklu sætara!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.