Ég hef verið að hugsa um það undanfarið hversu mikið pláss ég og aðrir sem ég þekki tökum. Mér finnst nefnilega áberandi að konur taki minna pláss í samböndum en karlmenn, eins og þær séu viljugri til að gefa undan og þóknast.
Það er kanski ekki skrítið með öllum þeim skilaboðum sem konur fá allstaðar að.
Iðulega eru konur að afþakka boð vegna þess að maki þeirra er upptekinn, hann er að fara á æfingu, það er spilakvöld, hann þarf að skreppa eitthvert eða það er svo mikið álag hjá honum í vinnunni að viðkomandi vill ekki þurfa að leggja það á hann að “passa” börnin.
Bella kvöldsins er ekki saklaus af þeim ósið að setja aðra í fyrsta sætið, maðurinn minn virðist alltaf hafa “fyrsta atkvæðisrétt” þegar kemur að því hvort okkar geti farið út og hvort okkar er heima, ég hef reynt að standa fast á mínu en einhvern veginn tekst honum að láta það virðast mikilvægara sem hann þarf að gera og láta mig lúffa.
En nú finnst mér nóg komið, ég hef jafn mikinn rétt og hann, mín erindi eru jafn “mikilvæg” og ég ætla ekki að lúffa.
Og ég þekki fleiri dæmi:
Vinkona mín hefur verið í sambandi með manni í nokkur ár, þau búa saman og hún á barn frá fyrra sambandi en hann hefur aldrei “passað” fyrir hana, þegar hún þarf að fara eitthvert þá reddar hún pössun fyrir barnið.
Önnur vinkona gerir ekkert nema að athuga hvort maðurinn sinn hafi hugsað sér að þau tvö væru kannski að fara gera eitthvað saman. Það er eins og þau séu ekki lengur tveir fullorðnir einstaklingar heldur ósjálfstæðar samlokur sem fara allra sinna ferða saman.
Enn önnur vinkona er svakalega sjálfstæð út á við, kærastinn býr ekki með henni og hún segist ánægð með þann ráðahag en er svo aftur á móti að klæða sig, klippa sig og haga sér eins og hann vill að hún hagi sér og hleypur til og stingur af frá vinkonum eftir hans hentugleika.
Nú er ég ekki að tala um einhverja ósjálfstæða unglinga í þessum dæmum, þetta eru fullorðnar konur sem sýna okkur að þó við séum í jafnréttisbaráttu, þó karlmenn séu að verða virkari á heimilinu og allt það, þá erum við enn að passa að taka ekki of mikið pláss og þóknast. Ég hef bara eitt að segja:
“Settu sjálfa þig í fyrsta sætið!”
…stundum viljum við bara vera heima og það er ekkert að því að afþakka boð en við skulum ekki gera það til að þóknast öðrum. Ekki breyta sjálfri þér fyrir aðra manneskju, þú hefur þínar eigin skoðanir, smekk, áhugamál og vini sem gera þig að þeirri manneskju sem þú ert, ekki tapa þvi!
Við erum sjálfstæðir einstaklingar þó við séum í sambandi og við megum ekki gleyma okkur sjálfum þangað til við segjum meira “við” heldur en “ég”.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.