Eydís er 8 ára skilnaðarbarn. Foreldrar hennar skildu þegar hún var 2 ára og mamma hennar eignaðist fljótlega mann og svo tvö börn í viðbót en pabbi hennar var einhleypur næstu 6 árin. Eydís vandist því að eiga pabba sinn ein og þau voru náin.
Svo eignaðist pabbi hennar kærustu, kærastan átti tvö börn og fljótlega fóru Eydís og pabbi hennar að eyða tíma með þeim og litlum tíma tvö ein. Það var breyting fyrir Eydísi en henni líkaði vel við börn kærustunnar og fannst gaman að eyða tíma með þeim. Eydísi líkaði líka vel við kærustuna til að byrja með en þó fannst henni erfitt að þurfa deila pabba sínum.
Of ástúðleg
Kærasta pabbans var mjög ástúðleg við hann, hvert sem þau fóru þurfti kærastan að halda í hönd hans, strjúka hann og kyssa og Eydísi fannst það óþægilegt. Eydísi fór að finnast hún útundan hjá pabba sínum, kærastan var alltaf við hlið hans, þegar þau horfðu saman á sjónvarpið var hún uppvið hann að kjassa hann, þegar þau fóru í fjölskylduboð eða afmæli hélt hún í hönd hans eins og hún þyrði ekki að vera ein og meira segja í verslanamiðstöðvum og í sundi var hún klesst upp við hann og það var einfaldlega ekkert pláss fyrir Eydísi að nálgast pabba sinn.
“Hún stal pabba”
Eydísi fór að líka illa við kærustuna sem hafði stolið pabba hennar frá henni, hún varð óþekk og hunsaði kærustuna sem varð til þess að kærastan varð sár og kvartaði í pabba hennar sem skammaði hana svo fyrir hegðunina.
Þá varð Eydís enn óhamingjusamari og reið við pabba sinn sem var svona óréttlátur. Hún sagði mömmu sinni að hún vildi ekki lengur fara til pabba síns og að kærastan væri vond við hana. Heilmikið drama uppstóð hjá fullorðna fólkinu sem reyndi að komast til botns í þessu máli en virtust ekki geta sett sig inn í hugarheim Eydísar, sem vildi bara fá að eyða tíma með pabba sínum án þess að kærastan héngi á honum.
Ástæða þess að ég deili þessarri reynslusögu?
Jú, því ég hef orðið vitni að samskonar hegðun allt of oft og finnst þörf að minna á að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Sérstaklega ef sú sál er lítil.
Börn kjósa ekki að vera skilnaðarbörn en sem betur fer eru þau dugleg að aðlagast og þegar fullorðnir einstaklingar ákveða að stofna samsetta fjölskyldu þá þurfa þau að haga sér eins og fullorðnir einstaklingar.
Nokkur atriði semstjúpforeldrum ber að hafa í huga:
- Nýr maki er ekki í samkeppni við börnin
- Það þarf að taka tillit til þarfa barnanna og venja þau hægt og rólega við nýjar aðstæður og leyfa þeim að kynnast nýja makanum áður en viðkomandi flytur inn eða eyðir öllum stundum á heimilinu
- Börnum þykir óþægilegt að horfa á ástaratlot fullorðinna, þó að fólk sé ástfangið þá ber að taka tillit til barnanna og stilla sig
- Stjúpforeldrar ættu að kynnast barninu og ná tengslum á forsendum þess, ekki vera of ákafir eða of hlédrægir
- Stjúpforeldrar ættu ekki að setja sig í hlutverk uppalandans fyrr en traust og vinátta hefur myndast við barnið
Ekki gleyma þeim yngstu
Annað dæmi sem ég þekki er fráskilinn frændi minn sem kynntist fráskildri konu og bæði áttu þau börn. Í fyrsta sinn sem þau komu saman í fjölskylduboð þá sátu þau saman hönd í hönd allt boðið og augljóst var að nýja konan var óörugg. Allir vildu sýna henni tillitsemi og láta henni líða vel en til hliðar sátu börn hennar, óörugg, feimin og útundan þar sem öll athygli fór á mömmu þeirra sem ríghélt í manninn sinn og hvorugt þeirra hugaði að börnunum sem voru að hitta allt þetta ókunnuga fólk í fyrsta sinn.
(Svipaða tilfinningu hef ég fyrir fullorðnu fólki sem er í stanslausum ástaratlotum eða á óviðeigandi tímum. Það kemur út eins og gífurlegt óöryggi, eins og þau þurfi að láta umheiminn vita að þau eigi hvort annað ef einhver skyldi nú efast um það og ætla að “stela” makanum.)
Stjúptengsl og fjölskyldur geta verið flókin fyrirbæri og það er um að gera að fræðast og fara varlega í málin svo að hægt sé að taka tillit til allra. Á netinu er hægt að kaupa fjölda bóka en svo eru samtökin Stjúptengsl með fjöldann allann af góðum heilræðum.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.