Það er ekki lítið framboðið af allskonar sambandsráðum og ráðum sem eiga almennt að gera líf okkar betra. Sum eru svona eins og skrifuð aftan á seríóspakka meðan önnur eru betri, skrifuð af fagmönnum sem hafa helgað starfsorku sína í að bæta líf annara.
1.Jákvæðni og hrós skiptir miklu máli
Í meira en þrjá áratugi hefur sálfræðingurinn og sambandsráðgjafinn Terri Orbuch leitt fram rannsókn þar sem 373 pör tóku þátt.
Hún komst meðal annars að því að fólk, pör, sem gefa hvort öðru reglulega jákvæða staðfestingu, hvort sem er í formi gullhamra, stuðnings eða aðstoðar og ókynferðislegrar snertingar; þessi pör eru hamingjusömust. Hún komst jafnframt að því að karlmenn þurfa meira á hrósi og jákvæðum staðfestingum að halda frá eiginkonum sínum því þeir fá þetta sjaldnast frá hvor öðrum. Segja ekki við hvorn annan á fundum: “Hæ sæti, geðveikir skór sem þú ert í.”
2. Talið um áhugamálin, og allt annað
…en sambandið. Orbuch komst líka að því að hamingjusömu pörin tala mjög oft um aðra hluti en bara sambandið, vinnuna, fjölskylduna, heimilshald eða heimilislífið. Hún skorar á fólk að ímynda sér bara að það sé búið að greiða alla reikninga og hringja í tengdó. “Spurðu hann hver sé uppáhalds bíómyndin hans og af hverju; Fáðu hann til að rifja upp skemmtilega minningu úr æsku; Spurðu hana hvað hún vill að fólk minnist sín fyrir. Þessar litlu breytingar munu blása nýju lífi í sambandi”, segir sérfræðingurinn.
3. Ekki festast
Flestum pörum fer að leiðast ansi mikið þegar sambandið og tilveran er komin í of fasta rútínu. Þið verðið að brjóta upp mynstrin af og til og breytingarnar verða ekkert að vera neitt stórkostlegar. Stundum dugar að gera bara eitthvað lítið en nóg til að makinn rumski og detti í gír að gera eitthvað skemmtilegt.
4. Hafðu það góða í huga
Helen Fisher, höfundur bókarinnar “Why Him? Why Her?: How to Find and Keep Lasting Love,” mælir með því að við höldum bara sem fastast í jákvæðar hugmyndir um makann; Þegar þú ert pirruð á honum áttu ekki að fara yfir allt í höfðinu sem fer í taugarnar á þér við hann. Hugsaðu heldur um það sem þér finnst gott við hann eða hana. Sálfræðingurinn Harriet Lerner er sammála:
“Nýgift fólk er yfirleitt hæstánægt með hvort annað og lætur hvort öðru líða vel með jákvæðum staðfestingum og blíðuhótum. En því lengra sem líður á samveruna og sambandið byrjar skíturinn að dúkka upp og fólk fer að finna hvort öðru allt til foráttu, og lætur það flakka. Það er ekki nokkur manneskja hamingjusöm í sambandi þar sem henni finnst hún meira gagnrýnd en elskuð og dáð”
5. Taktu eftir því sem vel er gert
Stephanie Coontz, höfundur bókarinnar “Marriage, a History,” segir að sambönd, líkt og efnahagurinn stjórnist á lánaviðskiptum. Með því á hún við að því meira sem við gefum ‘kredit’ fyrir það sem makinn gerir sem gerir okkar líf auðveldara. Að við tökum sérstaklega eftir því sem makinn gerir gott fyrir okkur og að við temjum okkur það hugarfar að makinn vilji okkur allt það besta, sé reiðubúinn að gera hlutina fyrir okkur en að við þurfum ekki að vera með brjáluð læti til að fá það sem við viljum.” Ætli hún sé ekki að tala um að með því að hafa jákvæðar væntingar fái maður jákvæða niðurstöðu?
6. Finndu mjúku tilfinninguna
Við glímum oft við allskonar erfiðar tilfinningar sem brjótast út í formi reiði og ásakana, harðar tilfinningar sem gefa engan grið. Sérfræðingarnir hvetja okkur til að leita að mjúku tilfinningunum sem búa þar undir. Þær geta verið kvíði, sektarkennd, skömm, ótti við að missa, höfnunartilfinning… Leitum að þessum tilfinningum og tjáum okkur svo í fyrstu persónu – ‘ég’ en ekki ‘þú’. Þetta hjálpar okkur í öllum samböndum, ekki bara ástarsamböndum eða hjónaböndum.
7. Lifðu þínu eigin lífi
“Hver er næstur sjálfum sér,” segir íslenska máltækið. Þú verður að halda góðu sambandi við þína eigin vini og fjölskyldu ef þú átt að vera hamingjusamur maki. Þú þarft jafnframt að hafa þín eigin áhugamál og hlúa að sjálfri/sjálfum þér því ef þú gerir það ekki þá er hætt við að þú verðir það sem er kallað ‘needy’ og ófullnægð með allt of mikinn fókus á maka þínum.
8. Ekki bíða eftir því að komast í stuð
Flestir sambandsráðgjafar hvetja okkur til að stunda kynlíf, jafnvel þó við séum ekki í stuði eða ægilega æst í það. Þetta á ekki að þýða að við stundum kynlíf með fólki sem vill ekki vera með okkur líka, eða að við segjum við makann að það skipti ekki máli hvort hann/hana langi líka. Það sem þetta þýðir er að þú þarft ekki að vera logandi af girnd til að stunda kynlíf. Skelltu þér bara á beddann og byrjaðu leikinn.
Fyrr en varir líður ykkur báðum betur. Þið finnið meiri tengingu við hvort annað, verðið nánari. Fyrir utan það hefst eftirsóknarverð boðefnaframleiðsla sem er góð fyrir bæði líkama og sál. Sérstaklega ef þið fáið fullnægingu. Passaðu líka að elskhugi þinn sé góður, kenndu honum að vera það. Að gefa í sama magni og maður þiggur er leyndardómurinn á bak við fullnægjandi kynlíf.
9. Slakaðu á væntingunum
Rithöfundurinn Dana Adam Shapiro gaf á sínum tíma út bók með heitinu: “You Can Be Right (or You Can Be Married): Looking for Love in the Age of Divorce.” Við undirbúninginn fór hann þvers og kruss um Bandaríkin og safnaði saman sambandsráðum frá pörum sem hafa skilið við maka sína. Þvílíkur reynslubrunnur. Fólk lærir jú oftast af reynslunni.
Besta ráðið kom frá manni sem kaus að kalla sig Jim. Hann sagði:
“Það er eitthvað svo gersamlega himneskt við ástina. Bókstaflega, þetta er eins og andardráttur Guðs, að setja aðra manneskju í hjartað sitt, hugsa alltaf um hana á undan öllu öðru. Í alvöru… en samt, alveg frá tímum fyrsta ástarklámhöfundarins, Shakespeare, við höfum krafist þess að ástin sé eitthvað yfirnáttúrulegt. Einhver brjálaður kraftur sem á að lyfta okkur yfir á æðri stig tilverunnar. Það eina sem við uppskerum eru vonbrigði. Ástin er auðvitað algjörlega frábær en það fellur í skuggann af væntingum okkar til hennar sem eru oftast mjög óraunhæfar.
Jim, sem er núna 55 ára og mjög hamingjusamur með þriðju eiginkonunni bætti við; Það mesta sem þú getur vænst af ástinni er að fá að vera með einhverjum/hverri sem virðir þig nógu mikið til að fara í gegnum kjaftæði hversdagslífsins með þér og er heiðarleg við þig. Það er bara rómantískast í heimi.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.