Konur gera oft þau mistök að láta sambandið við makann skipta sig öllu máli í lífinu.
Þær gefa sér ekki tíma til að djamma með vinkonum sínum, hafa fá áhugamál sem krefjast tíma utan fjölskyldunnar, eru lítið í því að frekjast með að fá sinn tíma, bara fyrir sjálfar sig.
Þetta er kannski ekki svo undarlegt þegar skilaboðin til ungra stelpna eru þau eru að við eigum að enda í hjónabandi við fallegan prins meðan strákarnir eiga að hafa áhugamál, vera úti að bjarga heiminum, klofa milli landa með kokteil í annari og konu í hinni eins og sjálfur James Bond! Mesta hetjan.
Þetta hefur afleiðingar.
Mörgum konum finnst makinn oft ekki hugsa nógu mikið um að rækta sambandið, ekki gefa því nógu mikinn tíma, ekki gera nógu mikið, ekki setja konuna í fyrsta sæti, ekki setja sambandið í fyrsta sæti.
Þeim finnst karlinn hugsa of mikið um sjálfan sig og eigin áhugamál en of lítið um hana, þau… börnin.
Hljómar þetta kannski kunnuglega?
Karlmenn setja sjálfa sig og sínar persónulegu þarfir mikið oftar í fyrsta sæti í eigin lífi.
James Bond er jú þeirra fyrirmynd alveg frá því þeir eru pínulitlir strákar. Gleiðgosalegur kokteilþambandi töffari sem á endalaust flotta bíla og endalaust margar kærustur. Fyrirmyndir strákanna eru ekki ungir, mjóir menn sem þrá að komast í samband við unga konu, vera trúr og tryggur og standa sig vel sem penn og prúður eiginmaður og pabbi. Nei, nei.
Það gildir þó öðru með okkur stelpurnar. Okkar fyrirmyndir (að minnsta kosti því sem er haldið að okkur) eru mjóar prinsessur sem syngja mjóróma lög með smáfugla allt í kring um sig þar til þær finna hamingjuna í hjónabandi við prins sem kemur og bjargar þeim frá hörmungum heimsins. Hápunkturinn er að fá að standa í brúðarkjól eins og alvöru prinsessa. Endir. En hvað svo?
Það er eflaust mikið meira gaman að hafa James Bond sem fyrirmynd… já…
Hvað ef þú værir James Bond!?
Prófaðu að ímynda þér hvernig það væri að eiga prinsessumann sem væri rosalega þurfandi.
Suðandi í þér að þið væruð ekki nógu mikið saman, að hann langaði svo að þið gerðuð meira, að honum þætti fúlt hvað þú settir sambandið ekki í fyrsta sæti, hann væri alltaf að biðja þig um meira, meira og meira.
Kvarta undan því hvað þú værir mikið með stelpunum, í ræktinni, að vinna lengi og svo framvegis en allt, allt, allt of lítið með honum.
Þætti þér hann sexý? Spennandi? Nei, líklegast ekki. Mögulega myndir þú bara draga þig í hlé og hafa minni áhuga á að eyða tíma með þessum þurftafreka kærasta.
Þig myndi frekar langa að eiga sjálfstæðan, skemmtilegan, töff og hressan kærasta. Þú myndir líklegast missa áhugann á prinsessumanninum þínum dramatíska sem kvartaði endalaust undan því hvað þú settir sjálfa þig í fyrsta sæti.
Settu þig í spor makans. Ímyndaðu þér hvernig þú myndir taka því ef hann færi að hegða sér eins og þú og veltu svarinu fyrir þér. Og farðu svo að hegða þér meira eins og hann! Vertu James Bond. Ekki Þyrnirós.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.