Það er alltaf að færast í aukana að fólk kynnist á netinu. Sumum finnst það einfaldara en að fara á barinn og leita sér að lífsfélaga. Þá er hægt að sitja í rólegheitunum heima hjá sér og spjalla við hinn aðilann um áhugamál, lífsskoðanir og kynnast betur en undir áhrifum áfengis.
En er það öruggt að viðkomandi aðili sem við erum að tala við sé að segja satt?
Mjög margar vinkonur mínar hafa skráð sig inn á netþjónustur með það í huga að finna hinn eina rétta. Nánast allar hafa sömu sögu að segja. Furðufuglarnir eru óvenjumargir þar inni, þó vissulega geti fólk dottið í lukkupottinn og hitt flotta týpu.
Sólveig vinkona mín skráði sig inn á eina svona þjónustu og var mjög opin varðandi áhugamálin sín, skoðanir og langanir til lífsins. Hún fékk fjöldan allan af svörum. Nítíu prósent af svörunum voru frá furðufuglum eins og frá gaurnum í pollagallanum sem vildi endilega fá að þrífa heima hjá henni klæddur í pollagalla einum fata.
En svo var það hann Árni sem heillaði hana frá fyrsta bréfi. Hann virtist eðlilegur gaur, búin að vinna sem flugmaður hjá Icelandair í nokkur ár. Ferðast mikið út af starfinu og hafði ekki haft tíma til að festa ráð sitt fyrr sökum anna í vinnunni.
Þau sendu hvort öðru mynd af sér og ákváðu í framhaldi af því að hittast á kaffihúsi.
Við fyrstu kynni var Árni frekar góður með sig, talaði óspart um ferðalögin sín milli heimsálfanna. Hvað lífið væri ljúft og skemmtilegt en eina sem honum vantaði í lífið væri falleg kona eins og Sólveig.
Sólveig var smá efins varðandi Árna því henni fannst hann ekkert sérstaklega myndarlegur og hrokinn í honum var frekar mikill – en hún hafði jú alltaf verið soldið heit fyrir karlmönnum í búningum. Hún var ekki lengi að skella Árna í flugmannabúninginn í huganum og hugsaði með sér…tja ju kannski er allt í lagi að hitta hann einu sinni enn og athuga hvort við gætum ekki náð saman.
Næsta deit
Svo varð úr, það var annað deit næstu helgi á eftir. Árni bauð upp á pizzu á krúttlegum ítölskum veitingastað og kvöldið var ljúft og skemmtilegt. Árni talaði enn jafn mikið um vinnuna sína og vinnufélaga sína sem allir áttu fjölskyldur. Spurði Sólveigu hvort henni langaði ekki að koma út með honum einhverntímann og sjá hann í aksjón.
Sólveig varð spenntari og þau ákváðu að hittast aftur fljótlega nema hvað að Árni sagðist vera að fljúga alla vikuna á eftir þannig að þau gætu ekki hist aftur fyrr en eftir rúmlega viku eða svo.
Nokkrum dögum seinna var Sólveig stödd í bankanum á Hlemmi. Hún hljóp yfir götuna í átt að Hlemmi þegar strætó stoppar beint fyrir framan hana, leit upp og sá kunnuglegt andlit. Sat ekki Árni í bílstjórasætinu. Í bílstjórabúningnum sínum!
Já það getur verið varasamt að trúa öllu sem fólk segir á netinu og best er að fara varlega í netkynni. Muna líka að gefa aldrei upp nein símanúmer, fullt nafn eða heimilisfang. Þú veist í raun ekkert við hvern þú ert að tala!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.