Þekkir þú muninn á heilbrigðu og óheilbrigðu sambandi? Margir gera það því miður ekki.
Á leið okkar um lífið eigum við í margskonar samböndum við fólk, bæði maka, fjölskyldu, vini og vinnufélaga. Við komumst á séns, eigum vini og vinkonur, foreldra og systkini og öll þessi sambönd eru ólík á sinn hátt. Þau bjóða upp á möguleika þess að við þroskumst og blómstrum sem einstaklingar, fáum aukið sjálfstraust, njótum lífsins betur og verðum sterkari. Þessi sambönd eru heilbrigð.
Svo eru það samböndin sem láta okkur ekki líða vel.
Það getur oft verið erfitt að horfast í augu við að maki, vinkona, samstarfsaðili eða fjölskyldumeðlimur kemur ekki fram við okkur af þeirri virðingu sem við eigum skilið. Við getum verið lengi í afneitun og leyft vandanum að vaxa.
Auðvitað er fólk ekki alltaf sammála og það koma upp vandamál í öllum langtíma og/eða nánum samböndum. Við þurfum málamiðlanir og stundum verðum við pirruð.
Þetta bendir ekki endilega til þess að samböndin séu óheilbrigð en hér eru nokkur atriði sem eru umhugsunarverð þegar þú veltir því fyrir þér hvort mörkin séu heilbrigð eða ekki.
Í HEILBRIGÐU SAMBANDI:
- Komið þið fram við hvort annað af virðingu
- Finnið þið fyrir öryggi og vellíðan
- Sýnið þið engin merki um árásarhneigð í garð hvors annars
- Leysið þið vandamálin á viðunandi hátt
- Njótið þið tímans sem þið eigið saman
- Styðjið þið við hvort annað
- Sýnið hvort öðru áhuga (fjölskyldu, heilsu, vinum, vinnu etc.)
- Haldið einkamálunum innan sambandsins
- Getið þið treyst hvort öðru
- Tjáið þið ykkur opinskátt og skýrt
- Stundið þið kynlíf af því ykkur langar til þess (ekki af skyldu eða gegn vilja)
- Fáið þið að halda ykkar eigin bréfum, tölvupóstum og símtölum privat
- Farið þið varlega með áfengi og önnur vímuefni og látið notkunina ekki koma niður á sambandinu
- Hvetjið þið hvort annað til að eiga aðra vini
- Eruð heiðarleg með hvernig kynferðismálum ykkar hefur verið og er háttað
- Vitið þið að flestir í lífi ykkar eru sáttir við sambandið (börn, foreldrar…)
- Eigið fleiri góðar en slæmar stundir í sambandinu
Í ÓHEILBRIGÐU SAMBANDI:
- Er reynt að stjórna eða ‘manipjúlera’ með hinn aðilann
- Er reynt að láta makanum líða illa með sjálfan sig
- Gerið þið grín að og kallið hvort annað nöfnum
- Er fundið að því hvernig makinn klæðir sig
- Gefið þið hvort öðru ekki tíma
- Eru vinir eða vinkonur gagnrýndar
- Óttast þú skapsmuni makans
- Er reynt að koma í veg fyrir að makinn eigi í vinasambandi við aðra
- Er óeðlileg afbrýðissemi og tortryggni yfir eðlilegri hegðun
- Verða einstakingar eða þjóðfélagshópar sem eiga margt sameiginlegt með makanum fyrir neikvæðri gagnrýni (óbeinar árásir)
- Er reynt að stjórna eigum eða peningum makans (t.d. bíl)
- Er hótað að meiða börn, fjölskyldumeðlimi, gæludýr eða skemma persónulega muni sem skipta makann máli
- Eru fjölskyldumeðlimir beittir líkamlegu ofbeldi: hrint, slegið, kýlt, rifið, hrist os.frv
- Og í óheilbrigðu sambandi er notað líkamlegt afl til að koma í veg fyrir að makinn fari
Kannski sérðu þig og samband þitt við makann (eða hugsanlega móður/föður eða aðra) í einhverjum þessara atriða en því er ekki alltaf auðsvarað hvort þú ættir að enda sambandið eða vinna á vandamálunum. Það er margt sem getur orsakað neikvæða hegðun og framkomu í samböndum. Réttast er að spyrja sig hvort sambandið hafi einhverntíma verið öðruvísi…
Ef svo er þá er gott að leita að ástæðunum fyrir því að þið eruð ekki heilbrigð í sambandinu lengur. Spyrja spurninga.
Kannski eru peningamálin slæm, þið standið í flutningum, eruð atvinnulaus, eigið við erfið fjölskyldumál eða veikindi að etja? Kannski er orsökin gamall vandi sem aldrei var raunverulega leystur og er alltaf að skjóta upp kollinum? Talið um þetta við hvort annað eða einhvern sem þið treystið, hvort sem það er læknir, fjölskylduráðgjafi, sáli, vinkona, vinur, kennari eða önnur manneskja sem þið teljið að hægt sé að treysta á.
Veltið því fyrir ykkur hvað þið getið gert, hvort um sig, til að láta hinu líða betur í sambandinu. Þá hugsar þú einfaldega “Hvað get ÉG gert til að mæta maka mínum betur í þessu sambandi?”
ATH: Ef þú eða einhver sem þú þekkir þarft á hjálp að halda til að leysa úr óheilbrigðu, erfiðu eða jafnvel ofbeldisfullu sambandi eru margir staðir sem hægt er að leita til. M.a. Bjarkarhlíðar, í Kvennaathvarfið eða Stígamót. Mundu bara að þú verður að þora að stíga fyrsta skrefið.
Fylgstu með okkur á Facebook. Smella HÉR.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.