Ég hef aldrei skilið stelpur sem falla fyrir fótboltastrákum. Það er eitthvað svo hrokafullt við þessa menn.
Sérstaklega ef þeir eru svo óheppnir að hafa líka fæðst nokkuð sætir. Þá verða þeir alveg einum of.
Ég er aldrei lengi að spotta út þessa gaura ef ég sé þá á djamminu. Þeir bera sig eins og þeir eigi heiminn. Þeir minna eiginlega svolítið á hana í hænsnakofa. Sperra sig með fattan mjóhrygg og þenja brjóstið undir þröngum bol meðan þeir valsa um svæðið með mojito í hönd eða standa glottandi upp við útvegg og bíða eftir að stelpurnar sogist að þeim.
Þessi hroki væri kannski allt í lagi ef þeir væru ekki svona grunnir líka greyin.
Það er varla tilviljun að við finnum ekki þann fótboltadreng sem á bara “venjulega” kærustu, – fattarðu?
Flestir eiga kærustur sem virka eins og þær séu aðallega upp á punt. Ofsalega sætar konur, með sillurnar á sínum stað, tveggja sentimetra gervineglur og ekki eitt einasta aukakíló. Tilviljun? Nei.
Lúkka í augum hinna
Fótboltastrákarnir hljóta að velja sér konur út frá því hvað lúkkar vel í augum hinna fótboltastrákanna. Þeir eru svona „Ný kona, nýtt hús, nýr bíll” týpur.
Konan eins og eitthvað dót sem þeir eiga. Ekki besti vinur þeirra eða jafningi. Enda eru þeir alltaf að skipta um kærustur og halda framhjá. Þurfa nýtt dót.
En af hverju verða þessir strákar svona hrokafullir og leiðinlegir? Ætli það sé ekki bara af því við keppumst við að segja þeim hvað þeir séu stórkostlega ótrúlega sjúklega æðislegir og þeir ofmetnast greyin. Fara yfir um á eigin egótrippi.
Kannski væri sniðugra að dreifa þessu betur og segja líka bóndastrákum, smiðum, sjómönnum, sjúkraþjálfurum og múrurum hvað þeir eru æðislegir. Til hvers að dæla öllu þessu hrósi í fótboltadrengi? Það eru fleiri karlmenn sem eiga skilið hrós og hvatningu fyrir að standa sig vel.
Er Victoria Beckham happý?
Þú getur eiginlega bókað að svona drengur er aldrei að fara að vera skemmtilegur eiginmaður til lengdar (þeir eru það reyndar fæstir en…). Sjáðu til dæmis Victoriu Beckham, fótboltafrú nr. 1. Það er ekki eins og hún sé bara sátt og sexý kona. Þvert á móti. Hún er tannstöngull í tískufötum sem brosir aldrei. Virkar ekki á mig eins og hún sé mjög elskuð af manni sínum. Meira eins og hengd upp á herðatré og sjúklega upptekin af útlitinu.
Ótrúlega margar eignkonur og kærustur fótboltamanna virðast líka lenda í því að þeir halda framhjá. Bresku blöðin eru full af þannig sögum. Kannski ekki skrítið þegar þeir “eru” svona sjúklega, rosalega, ótrúlega æðislegir og allir alltaf að segja þeim það. Aumingja mönnunum finnst pottþétt eins og þeir bara verði að „gefa af sér”. „Dangla í fleiri tuðrur með miðjufætinum,” eins og einn sagði.
Æi, þessir jocks geta bara alveg átt sig. Gefðu mér frekar bóndastrák, kokk, tölvunarfræðing eða smið.
There, I said it.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.