Það eru ekki allar konur svo heppnar að búa alla tíð við góð og heilbrigð sambönd.
Margar fara á milli sambanda, vita ekki alveg hvað þær vilja.
Við látum allskonar vitleysu yfir okkur ganga, prófum að vera í mörgum samböndum eða hættum og byrjum með sama manninum aftur og aftur en gleymum alltaf að hægja á og horfa inn á við.
Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:
- Lærðu að láta þér þykja raunverulega vænt um sjálfa þig svo þú hættir að laða að þér menn sem þykir það ekki.
- Lærðu að þekkja þín eigin mörk.
- Lærðu að hlusta á þína innri rödd.
- Lærðu að fylgja henni.
- Lærðu að það er sama hvað hann segir, sumt eiga konur ekki að sætta sig við.
- Lærðu að vera opin með tilfinningar þínar og byrja setningar á að segja: “Mér finnst…” eða “Mér líður…” eða “Mig langar….” í stað þess að nota “Þú…”.
- Lærðu að það er enginn karlmaður sem heldur á lyklinum að þinni lífshamingju.
- Lærðu að vera næm á sjálfa þig í stað þess að keppast við að vera næm á karlmanninn í lífi þínu.
- Lærðu að þú þarft ekki alltaf að vera sterk, þú mátt vera viðkvæm. Taktu tillit til eigin tilfinninga og en vertu síðan sterk og gerðu það sem er sjálfri þér fyrir bestu.
- Lærðu að heilbrigt ástarsamband snýst um vináttu, virðingu og kynlíf sem byggir á trausti og ást.
- Lærðu að gefa sjálfri þér tíma.
- Lærðu að elska sjálfa þig.
Þú þarft ekki alltaf að svara, þú þarft ekki að setja hann í fyrsta sæti, þú þarft ekki að reyna að vera vinkona hans, þú þarft ekki að þóknast honum.
Prófaðu að þóknast sjálfri þér og spyrðu þig svo hvort þú værir með þessum manni ef þú ynnir 70 milljónir í Lottó í kvöld. Ef þú hefðir allar forsendur til að vera algjörlega sjálfstæð og gætir gert allt sem þig dreymir um.
Ef svarið er þannig að þú myndir hugsanlega velja annann – þá er líklegast rétt að taka sér tíma. Hlúa að sjálfri sér, rækta sína innri konu. Læra að verða kvenleg og sterk á sama tíma, læra að njóta þess að vera ein og opna svo dyrnar varlega fyrir nýrri vináttu sem byggir á virðingu og góðu kynlífi grundvölluðu á gagnkvæmri ást.
Þú átt ekkert minna skilið.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.