Okkur barst lesendabréf frá ungri konu sem deila með okkur reynslu sinni og vinkvenna sinna af kynlífi á meðgöngu en þetta er umræðuefni sem stundum gleymist í öllum óléttupælingunum.
Kynlíf á meðgöngu er eitthvað sem oftar mætti fjalla um en eftirfarandi er tekið saman úr samtölum vinkvenna minna sem hafa, eins og allar óléttar konur, allt sem tengist meðgöngunni á heilanum. Við höfum pælt í öllu frá blæðandi tannholdi yfir í gyllinæð og inngrónar táneglur og auðvitað tölum við líka um kynlífið sem makar okkar höndla mjög misjafnlega.
Í byrjun meðgöngu kemur það oft fyrir konur að þær verða mjög kynferðislega aktívar, mönnum þeirra til mikillar gleði. Hormónabreytingar og aukið blóðflæði veldur því að konur geta fengið aukna löngun og dýpri fullnægjingar en áður og því ber að fagna. En þið vitið ekki hverju þið eigið von á þegar lengra líður á meðgöngu, það má við öllu búast.mÞað skiptir eiginlega ekki máli hvort konan þín vill kynlíf eða vilji það alls ekki, hvort hún sé skapvond eða tilfinninganæm, þið verðið að vita ykkar hlutverk er AÐ VERA TIL STAÐAR.
Ósexý kona og ótti við að barnið meiði sig…
Margir karlmenn halda að konan eða barnið muni meiða sig við kynlíf. Staðreynd: Barnið mun ekki meiða sig. Konan mun ekki meiða sig ef meðgangan er eðlileg og þið eruð ekki í stellingu sem kremur bumbuna. Komum að bestu stellingunum síðar.
Mörgum karlmönnum finnst konan ekki eins kynþokkafull þegar bumban stækkar, leggirnir þrútna og skapvonskan jafnvel lætur á sér kræla. En fyrir alla muni þú mátt EKKI LÁTA HANA VITA ÞAÐ. Það er mjög líklegt að konunni þinni finnist hún hræðilega ósexý, stór og þung en það er hlutverk þitt að koma fram við hana eins og svo sé ekki, hrósaðu henni óspart, knúsaðu, nuddaðu þrútna fæturna og sýndu henni hlýju. Ef hún er til í kynlíf þá máttu til með að sýna henni alúð og hlýju og sinna húsbóndaskyldunni, þetta er ennþá konan sem þú varst hrifin af og nú gengur hún með barnið þitt svo þú hefur í raun miklu meira að elska en áður.
Ekki vera ýtin ef hana langar ekki til
Ef konan þín er svo heppin að þér finnst hún dásamlega falleg og sexý þrátt fyrir óléttuna og þig langar í jafnmikið, ef ekki meira, í kynlíf en áður þá getur samt verið að hún vilji það alls ekki. Þú verður að virða það, ekki vera ýtinn, láttu hana vita að þú viljir hana án þess að vera svo ýtinn að hún fær samviskubit og líður illa yfir að langa ekki í kynlíf. Það er margt sem veldur því, hormónabreytingar, verkir, óöryggi en umfram allt þá vill kona þín hlýju þó hún vilji ekki kynlíf.
Þú verður að taka utan um hana, strjúka bumbunni og sýna eins og ég sagði áðan að ÞÚ ERT TIL STAÐAR. Það eru engar afsakanir til fyrir því að vera fráhverfur og sjálfselskur í þessum aðstæðum, konan gengur með barnið þitt, það er eitt það merkilegasta sem ein manneskja getur gert fyrir aðra manneskju!
Vilja báðir aðilar kynlíf?
Hvaða stellingar henta okkur best? Lykillinn að þeim er að kremja ekki bumbuna og hossast ekki mikið
- Konan ofan á, þá stjórnar hún ferðinni. Þessi er góð hvort sem þið snúið að hvort öðru eða hún frá, (við það breytist örvunarsvæðið)
- Við rúmendann (borðendann, sófabrúnina) karlinn stendur við brúnina og hún liggur með fætur utan um þig eða upp í loft.
- Skeiðin. Hugguleg stelling þar sem þið liggið á hlið og snúið í sömu átt, karlinn fyrir aftan konuna.
- Aftan frá. Bæði standandi og hún hallar sér upp við rúmið. Ef hún vill liggja þá getur hún verið á hnjánum og stillt púðum upp sem stuðning við bumbu.
Samskipti eru galdurinn á bak við gott kynlíf
Ég vildi að ekki þyrfti að segja karlmönnum þessa mjög svo einföldu hluti en það virðist á mörgum sviðum sem karlmenn hafa ekki þróast nóg þrátt fyrir aukið jafnrétti og jöfn hlutverk kynjanna. Í þessa 9 mánuði sem konan þín er ólétt ber þér umfram allt að vera til staðar fyrir hana og ófætt barn ykkar. Hún drekkur ekki, reykir ekki og hefur takmarkaðan áhuga og orku til að stunda glaum og gleði, sýndu henni þá virðingu og samstöðu að sleppa þessu líka eða gera í mjög góðu hófi með hennar samþykki.
Ef hún er tilfinninganæm og leið og finnst hún feit, ljót og orkulaus, reyndu þá að setja þig í hennar spor og segðu umfram allt að hún sé ekki feit eða ljót, bara meira falleg og aðeins stærri en það er allt í lagi, bara tímabundið ástand. Karlmaðurinn hefur ekki leyfi til að fara í sjálfsvorkun yfir ástandi konunnar meðan á þessu tímabili stendur, það er hún sem er að lifa þessar tilfinningar og líkamsbreytingar.
Vertu góður pabbi og góður maki
Sjálfsagt er mjög erfitt að þola ef konan er skapstygg og viðskotaill, kvartar undan öllu og lætur allt fara í taugarnar á sér. Aftur, greyið hún að vera með hormóna sem láta hana líða svona illa, ekki taka það inn á þig heldur frekar að sýna hinn vangann, vera góður við hana, gefa henni blóm, nudd eða elda góðan mat, það er sennilega besta leiðin til að henni líði betur og fari í framhaldinu að mildast gagnvart þér. Ef mamman er hamingjusöm, þá er barnið hamingjusamt í bumbunni. Ófædd börn skynja tilfinningar; stress, ótti og reiði getur haft áhrif á líðan þess. Þó konan sé kannski að gera þig vitlausann, máttu ekki missa þolinmæðina, vertu góður pabbi, barnsins vegna, hennar vegna og ykkar vegna.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.