Fyrir nokkrum mánuðum síðan skrifaði ég einlægan pistil um að ég væri búin að vera einhleyp alla mína ævi og væri nýhætt að skammast mín fyrir það.
Aðeins nokkrum vikum síðar byrjaði ég að hitta mann sem ég er í sambandi með í dag. Skjótt skipast veður í lofti … eða hvað?!
Ég geri mér fulla grein fyrir því af hverju ég er búin að vera ein allan þennan tíma. Ég var hreinlega ekki tilbúin. Satt best að segja leið mér ekki nógu vel í mínu skinni til þess að trúa því að ég ætti manneskju skilið sem kæmi vel fram við mig.
Síðastliðinn áratugur hefur því farið í það, til að byrja með, að eltast við stráka sem voru ekkert sérstaklega spenntir fyrir mér. Stráka sem hringdu ekki. Stráka sem létu mér líða eins og ég væri ekki alveg nóg, því það var það sem ég trúði ómeðvitað innst inni.
Þegar ég kveikti loks á perunni fyrir nokkrum árum og fattaði að vandamálið lá mín megin – að þetta snérist ekki um strákana sem voru ekki hrifnir af mér heldur það að ég væri ekki nógu ánægð með sjálfa mig – þá tók við stórtæk sjálfskoðun og tiltekt í hausnum á mér.
Það tók mig nokkur ár að vinna mig út úr úreltum viðhorfum og alls konar ranghugmyndum þangað til ég náði áfangastaðnum. Að gera mér grein fyrir að ég ætti allt hið besta skilið, eins og við öll. Að ég var tilbúin fyrir manneskju sem myndi koma fram við mig af heilindum.
Hvernig týpu á ég að vera með?
Eins og margir einhleypingar – að ég tel – hafði ég haft nægan tíma til þess að velta því fyrir mér hvernig manneskju væri best fyrir mig að vera með.
Ég taldi til dæmis að ég þyrfti á persónuleika að halda sem væri rosa hress og út á við. Týpunni sem myndi draga rólegu mig á lappir og upp á fjöll allar helgar, neyða mig til að fara af stað og gera alla þessa hluti sem ég „ætti“ að vera að gera.
Djókið er að maðurinn sem ég fékk er alveg jafn rólegur og ég. Hann hefur enn sem komið er ekki stungið upp á fjallgöngu, ekki dregið mig á tónleika eða í leikhús í hverri viku, né í eitt einasta partí.
Þú veist, þessa hluti sem væru svo góðir fyrir mig en ég nennti bara ekki að afreka svona upp á mitt einsdæmi. Manneskju sem myndi drífa mig út og sjá til þess að ég yrði ögn félagslyndari en gæti engu að síður séð um að halda uppi samræðum við fólk svo að ég gæti fengið að vera aðeins til baka, þar sem mér líður best.
Djókið er að maðurinn sem ég fékk er alveg jafn rólegur og ég. Hann hefur enn sem komið er ekki stungið upp á fjallgöngu, ekki dregið mig á tónleika eða í leikhús í hverri viku, né í eitt einasta partí.
Í stað þess að ýta á mig að fara út og gera alla þessa hluti sem ég taldi mig þurfa að gera (til þess að vera nógu „góð“?) þá hefur hann þvert á móti hjálpað mér að skilja að ég þurfi ekki að gera þessa hluti frekar en ég vil. Að það sé alveg í lagi að vera rólega týpan sem finnst fínt að horfa á bíómynd á föstudagskvöldi og kýs frekar að spila borðspil en að arka upp á fjöll.
Ég vil ekki vera ofurkona hvort sem er
Ég hélt að ég vissi hvers ég þarfnaðist – eftir allt saman þá lifi ég nánast fyrir sjálfskoðun. Ég komst hins vegar að því að þessi ímyndaði einstaklingur sem átti að … hvað, breyta mér, bæta mig? Hann hefði ekki gert neitt annað en að láta mér líða eins og sú sem ég er væri ekki nóg, að ég þyrfti endalaust að streða við að ná einhverri fullkomnun.
Verða þessi ofurkona sem er ávallt vel til fara, sinnir milljón áhugamálum, ræktinni, fer í matarboð og á tónleika og viðheldur jafnframt frábærum starfsferli … Æ, ég vildi ekkert vera hún hvort eð er.
Það sem ég held að ég sé að reyna að segja er að við vitum ekkert alltaf hvað, eða hver, er bestur fyrir okkur. Hjá mér var þetta í lokin ekki spurning um hvers konar einstakling var um að ræða, ekki á yfirborðinu að minnsta kosti. Heldur hvers konar tilfinningar hann vekur upp hjá mér.
Einstakling sem kemur fram við mig af virðingu, er annt um heilsu mína sem og andlegt ástand, einstakling sem finnst ég frekar frábær … og segir mér það. Manneskju sem er svo miklu meira en hann virtist í fyrstu og kemur mér sífellt á óvart. Mann sem lætur mér líða eins og ég sé fullkomlega góð eins og ég er – já, jafnvel þó ég sjái ekki ástæðu til að rölta upp um fjöll og firnindi til að sanna það.
Eftir allan þennan tíma og vangaveltur um þetta makaleysi og hvað það þýddi fyrir mig þá kom í ljós að það snérist jú einmitt um mig og engan annan. Sambönd okkar við annað fólk – það hvernig við leyfum því að koma fram við okkur – sýna okkur alltaf hvað okkur finnst við eiga rétt á og hvernig okkur líður innst inni.
Þetta nýja samband gleður mig fyrst og fremst vegna þess að það er afleiðing af því hversu vænt mér þykir orðið um sjálfa mig.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.