Að engu leyti erum við konur eitthvað fullkomnari en karlmenn, en framkoman sem við fáum frá karlmönnum getur verið ansi léleg.
Við erum nokkar vinkonur sem eru á aldrinum 30 – 55 ára og margar á lausu. Og það er sama sagan hjá okkur öllum, virðist ekki skipta máli hver aldurinn er. Oft á tíðum skítleg framkoma sem minnir á Fred nokkrun Flintstone.
Steinaldarmenn á Íslandi
Strákar – það er víst árið 2013 núna. Það er ekki hægt að slá okkur í höfuðið með sleggu og draga okkur heim á hárinu. Sá tími er löngu liðinn og við viljum herramennskuna aftur í tísku takk.
Að vera samkvæmur sjálfum sér er eitthvað sem ansi marga karlmenn skortir. Þeir segja eitt og gera svo annað og jafnvel hafa samt meint þriðja hlutinn. Hvernig eigum við að halda í við þessa endalausu vitleysu?
Segið það sem ykkur finnst og látið hvort annað vita strax hvernig ykkur líður saman!
Karlmaður getur gengið á eftir þér með grasið í skónum í langan tíma en svo um leið og þú sýnir honum áhuga og gefur færi á þér þá er hann horfinn. Það er eins og þetta hafi bara snúist um að “veiða”.
Og annað, þú ert búin að vera að deita karlmann í smá tíma og þið hafið eytt nóttum saman og gert ýmislegt skemmtilegt. Einn góðan veðurdag segir hann alveg upp úr þurru:
„Þetta er svolítið mikið!“
Bein þýðing á þessu er: „Ég er hræddur, vill ekki binda mig og langar að sjá hvað fleira er í boði þarna úti.“
Því ekki bara koma hreint fram strax?
Ég fékk að heyra það um sjálfa mig um daginn að ég gæfi of mikið af mér of fljótt. En ég er forvitin að vita – hvenær er eitthvað of fljótt?
Á maður að halda aftur af sér lengi lengi og gefa ekkert af sér í samband sem þig langar samt að verði til frambúðar? Gefur það ekki kolranga mynd af þeirri persónu sem þú ert? Kannski búin að vera að deita og sofa saman og skeppa í ferðalag eða útilegu og djamma og búin að hitta vini hans og þú alltaf jafn kúl og casual á því eins og þetta samband sé bara svona „er á meðan er” dæmi. Svo allt í einu einn daginn þá ertu ungfrú „all over him” gusar yfir hann yndislegheitunum og fallegum orðum. Hann heldur auðvitað að þú sért farin á geði.
Nei, ég er á því að ef þú ert þannig týpa sem er fljót að opna þig fyrir fólki þá á bara gera það. Ekki bæla eitthvað niður sem á síðan eftir að flæða út seinna. Ef karlmaðurinn sem þú ert að hitta getur ekki tekið þessu og kemur með línuna „þetta er svolítið mikið” þá á hann þig ekki skilið og þá er líka fínt að fá að vita það fyrr en seinna.
Tíminn er dýrmætur og ekki sóa honum í vitleysu eða á ranga manneskju. Eyddu honum frekar með þessum rétta.
Því miður þá gerist það allt of oft að fólk eyðir of löngum tíma í eitthvað sem er ekki til neins á endanum. Það líða dagar, vikur og mánuðir, jafnvel ár og maður heldur að allt sé í rosa góðu í sambandinu. Svo einn daginn heyrist: „Ég elska þig ekki lengur og ætla að flytja út.“
Það er ekki gott að heyra svona og hvað þá að kyngja því að nokkur ár eru farin í súginn og þú 36 ára gömul og á lausu enn og aftur! Þá er betra að velja rétt.
Karlmenn þurfa að læra að opna sig og TALA
Ekki þegja það í hel þangað til búið er að mála sig út í horn og allt of seint að opna sig.
Þið verðið að læra að tjá ykkur.
Við konur er klárar og allt það og getum allt sem við ætlum okkur og viljum gera, en að lesa hugsanir er ekki einn af okkar ofur-kröftum eins mikið og við vildum geta það þá er það því miður ekki þannig.
Ef þér líkar við einhvern skaltu ekki hika við að láta það í ljós. Annars værum við alltaf í myrkrinu.
Ef mér líkar við einhvern þá er ég ekki feimin að segja það upphátt við viðkomandi og annað, þegar stelpa/kona segir að henni líki við strák/mann þá meinar hún það frá öllu hjarta.
En þegar strákur og jafnvel karlmaður lætur falleg orð falla um konu þýðir það ansi oft: „Mig langar að ná þér í rúmið“.
Afhverju erum við svona ólík en þurfum samt á hvort öðru að halda til að deyja ekki út? ~ dæs*
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.