Það er nánast ekki hægt að hætta með karlmanni líkt og skorið sé á reipi, eða “cold turkey style”. Þú freistast yfirleitt alltaf til að taka upp símann og sms’a eða hringja þegar þú átt ekki að gera það.
Þá skiptir ekki endilega máli þó þú hafir hætt með honum… við eigum alltaf okkar veiku móment enda finnum við þessa rosalegu þörf til að fylla í tómarúmið sem myndast þegar kærastinn er farinn.
Þetta hefur víst eitthvað með starfsemi heilans að gera – “skynsama” stöðin í heilanum og “tilfinninga” stöðin eru ekki alltaf duglegar að starfa saman og þessvegna grípur okkur stundum löngun til að leita aftur í karlmanninn sem gerði okkur aldrei neitt sérstaklega gott. Fylla í tómarúmið… þó ekki sé nema bara eitt kvöld (sem svo verður annað, og annað, þar til allt fer í rugl aftur).
Hér eru nokkur góð ráð sem hjálpa þér að koma í veg fyrir að fylla tómarúmið með Kjörís, Bingókúlum, bjór eða andvökunóttum á Facebook. Þú kemst fljótt aftur í gírinn og finnur þér kærasta sem er tíu sinnum betri en hann þarna – æ hvað heitir hann aftur?
1. Fylgdu hálftíma reglunni
Það er kannski föstudags, eða laugardagskvöld og þú finnur allt í einu tómarúmið hellast yfir þig. Þið voruð alltaf saman á föstudagskvöldum og núna langar þig hrikalega að senda honum sms eða hringja. Ekki gera það. Þú veist að þetta er ekki endilega af því þú saknar hans svona mikið eða langir að vera með honu. Kannski leiðist þér bara og kannski ertu bara með egglos. Hér er reglan: Prófaðu að bíða í hálftíma og leiða athyglina að einhverju öðru. Lestu Pjattrófurnar, hringdu í vinkonu, leigðu mynd eða farðu í ræktina. Það á eftir að koma þér verulega á óvart að eftir hálftíma ertu búin að fatta að þetta með að sms’a honum var bara skyndihugdetta og það var mikið betra að bíða.
2. Losaðu þig við FB prófílinn hans… og aðra “triggera”.
Flestar konur eru með það sem ég kalla “triggera”. Þetta eru hugsanir og athafnir sem kalla bara fram söknuð og leiða yfir því að sambandið sé búið. Til dæmis að “stalka” Facebook vegginn hans, fara á uppáhalds kaffihúsið ykkar, rúnta framhjá húsinu hans, hlusta á tónlist sem þið voruð bæði hrifin af og svo framvegis. Þetta kallar bara fram óþarfa söknuð af því innst inni veistu að hann er ekki sá eini rétti. Prófaðu að blokkera FB prófílinn hans í einhvern tíma, hentu öllu sem þú átt sem minnir þig á hann í poka inn í skáp, eyddu honum úr símanum. Það hjálpar þér að halda áfram í þá átt sem þú átt að fara.
3. Hringdu í þessa sem andar ekki á milli setninga.
Eitt af því besta sem hægt er að gera til að komast yfir fyrrverandi er að hringja óspart í málglaðar vinkonur. Þú veist að ef þú ert sú sem talar meira þá áttu örugglega bara eftir að tala um hann, velta því fyrir þér hvort hann sé komin með nýja og svo framvegis og þegar þú skellir á þá á þér bara eftir að líða verr yfir nýja “single” statusnum. Hringdu frekar í vinkonu sem myndi tala endalaust við vegg eða kókoshnetu að nafni Wilson ef hún hefði engann annan að tala við. Leyfðu henni að láta dæluna ganga um leiðinega yfirmanninn, nýju vinnuna, söguþráðinn í True Blood, mömmu sína eða hvað sem er – svo lengi sem hana langar meira að tala um sjálfa sig en þig.
4. Búðu til lista.
Skrifaðu niður þrjár aðal ástæðurnar fyrir því að þú ert betur sett án hans en með honum. Skrifaðu líka niður allt sem fór í taugarnar á þér við sambandið. Allt sem var of ólíkt með ykkur. Hvernig hann kom ekki fallega fram við þig og svo framvegis. Það er voðalega freistandi að sjá sambandið fyrir sér í hillingum þegar hann er hættur að hringja og koma heim með eldsmiðjupizzu en vittu til, um leið og þú nærð að sjá stóru myndina áttu ekki eftir að láta þessi augnabliks saknaðar-köst ná tökum á þér og fyrr en varir áttu eftir að hitta nýjan og mikið, mikið betri kærasta og saman munuð þið valhoppa út í sólarlagið á Prada skóm í stíl.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.