Konur eiga það til að kvarta meira (og á fjölbreyttari hátt) undan körlum en öfugt. Karlmenn dæsa oft mæðulega að þeir skilji ekki konur og tala um þær séu erfiðar eða flóknar en kvart og kvein kvenna undan hinu kyninu getur oft verið ámóta fullt af margbrotnum lýsingum og bestu bækur Laxness.
Á „sakaskrá“ karldýrsins kennir þannig ýmissa grasa, allt frá valdníðslu til ábyrgðarleysis og ógreiddra meðlaga.
En af einhverjum ástæðum virðist kvenþjóðin gleyma að spyrja sjálfa sig að því hvers vegna þær láta karlmenn komast upp með að hegða sér svona illa. Kunna konur kannski ekki að setja þeim mörk?
Það virðist vera að karlskepnan sé þannig úr garði gerð að hún gangi eins langt og hún getur, þar til einhver setur henni skóinn fyrir dyrnar.
Líkt og hundar reyna þeir þannig flestir að komast alltaf lengra og lengra inn í „stofu“ og ef enginn stoppar þá -þá enda þeir uppi í sófa og dreifa hundahárum í fína fallega plussið.
Og hún ryksugar sófann
Það skrítna er að konur virðast margar halda að eina rétta leiðin til þess að breyta markaleysi karldýrsins sé að skammast í því líkt og maður skammast í hundum.
En það hefur sýnt sig og sannað að svoleiðis ber óskaplega lítinn árangur.
Karldýrin bregðast þannig við tuði og skömmum að eyrun sogast inn og þeir heyra ekki neitt. Heyra bara óþægilegt hljómfall, skrækan róm og orð sem hafa enga sérstaka merkingu og eru ekki endilega í beinu samhengi við það sem gerist. Þessu hafa þeir sannanir fyrir því stundum stökkva þeir upp í „sófann“ án þess að hún bregðist við með orðarununni ógurlegu. Það gerist ekki neitt. Hún dæsir bara, hristir höfuðið, nær í ryksugu og ryksugar svo plussið.
Og einmitt af því hún dæsir stundum og ryksugar plussið fær hann hrein og tær skilaboð um að tuð hennar hafi takmarkaðað vægi og þar af leiðandi leyfir hann sér að fara yfir mörkin aftur og aftur.
Hún er ekki með nógu skýr mörk og ekki hann heldur.
En samt nennir hún að röfla yfir honum daginn út og inn við vinkonur sínar. Kvarta undan því hvað hann sé erfiður, ábyrgðarlaus, tillitslaus, órómantískur, öfgafullur, óstundvís og mikil subba svo fátt eitt sé nefnt.
Að láta í minni pokann
Önnur skemmtileg viðbrögð sem karlmönnum er tamt að sýna er að fara strax í VÖRN.
Að vera „sterkur í vörninni“ hljómar jú ekkert illa í eyrum stráka og kannski er það þess vegna sem stórskotaliðsárás af orðum flýgur yfir borðið þegar konan byrjar að skamma þá. Þeir æsast upp „med det samme“ og ybba sig svo hátt og mikið að frúin lætur í minni pokann. Gefur eftir. Af því einhver verður að gera það og ekki virðist æsti maðurinn líklegur til þess.
Vandamálið er bara að jafnvel þó hún láti í minni pokann þá hverfur gremja hennar ekki heldur safnast bara fyrir og byrjar að gerjast í eitthvað andlegt óæti.
Til dæmis bíður sjálfsvirðing konunnar hnekki. Ef hún getur ekki staðið almennilega með sjálfri sér þá finnst henni að lokum minna til sín koma. Þetta verður til þess að samband hennar við sjálfa sig, og þar af leiðandi makann, veldur enn meiri vandræðum og á endanum gæti farið svo að þau myndu slíta samvistum.
Já sei, sei…
Niðurstaðan: Ekki reyna að setja mörk með því að segjast ætla að setja mörk. Settu þau með því sem þú gerir. Láttu verkin tala.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.