Jafnréttisbaráttan er enn í gangi á flestum vígstöðvum en fólk virðist gleyma því að jafnréttið byrjar á heimilinu. Ein helsta ástæða sambandsörðugleika eru t.d. rifrildi um þrifin en samkvæmt mínum vinkonum og kunningjum þá eru þær að sjá um flest öll heimilisstörf ásamt því að vera í fullri vinnu.
Ég ætla ekki einu sinni að fara út í það að flestar konurnar eru að vinna jafnlangan vinnudag en fyrir þó nokkuð lægra kaup en karlmaðurinn. En er það ástæða til að ætlast til að konan sjái um þrifin, því hún þénar minna?
Byrjum á byrjuninni:
Mæður, ekki gera fyrir aðra sem þeir geta gert sjálfir!
Þetta er uppeldisvandamál. Allt of margar mæður taka á sig þrifin á heimilinu og kenna börnum sínum ekki til verka. Kennið dætrum ykkar OG sonum að taka til, þrífa, þvo þvotta og elda skref fyrir skref, ekki senda þau ósjálfbjarga út í heiminn.
Flestir kenna börnum sínum ungum að taka til og ganga frá eftir sig, svo er bara að fylgjast með hverju þroskaskeiði, byrja að senda þau út með ruslið, leyfa þeim að hjálpa til við eldamennsku, flestum börnum finnst það gaman. Ef þið eigið börn í íþróttum þá getið þið t.d. kennt þeim á þvottavélina og látið þau sjá um að þvo æfingafötin sín sjálf. Um 18 ára aldur eiga allar stelpur og strákar að geta gert öll heimilisverk.
Hættið að senda syni ykkar ósjálfbjarga út í heim því það er mjög erfitt fyrir okkur tilvonandi tengdadætur “að kenna gömlum hundum að sitja!”
Næsta skref:
Konur, ekki gera það fyrir aðra sem þeir geta gert sjálfir!
Ef þið farið í sambúð með manni sem er ekki húsum hæfur, ekki taka á ykkur öll verkin ósjálfrátt, kennið honum að þvo þvottinn sinn sjálfur, þrífa og vaska upp. Ef það er eitthvað sem hann þó kann. t.d. að vaska upp og elda en annað sem hann er vonlaus í eins og að þrífa klósett og skúra, gerið þá skiptidíl, hann eldar og vaskar upp og þú þrífur…
Ég verð ekki ánægð fyrr en ég sé jafnrétti á heimilinu!
Algengar afsakanir karlmanna fyrir að gera ekki húsverkin eru þessar:
“Ég sé um þrif og viðhald á bílnum!” ( sem þýðir oftast að þeir fara 1-2 á ári á bílaþvottastöð og annað hvert ár með bílinn í yfirhalningu fyrir skoðun).
“Ég sé um að fara í endurvinnsluna!” (sem þýðir oftast að þegar ekki er hægt að troða fleirum svörtum ruslapokum fullum af dósum og flöskum í geymsluna, ferja þeir bílinn og fara í endurvinnslu, 1-3 á ári).
“Ég vinn svo mikið, ég þéna meira en þú…” (ef þú vinnur jafn mikið og hann þá má “lemja þennan með flugnaspaða”, það er ekki þér að kenna að hann sé með hærri laun!).
Algeng afsökun kvenna fyrir að taka á sig húsverkin er sú að þeir gera allt svo illa.
Ég þekki þetta, ég ætlaðist einu sinni til þess að maðurinn minn skúraði, hann dýfði þá moppu ofan í vatnsfötu og skellti henni rennblautri á gólfið og hrærði henni fram og tilbaka. Mér féllust hendur, hann kunni ekki einu sinni að vinda tusku! Ég lét hann ekki aftur skúra og ekki heldur að þrífa klósett en hann sér um uppvaskið í staðinn. Mér finnst það góður díll.
Karlmenn kunna að semja, semjið við þá um verkaskiptingu sem allir eru ánægðir með og munið að ef það eru börn á heimilinu að koma þeim inn í heimilisverkin líka!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.