Við erum öll ólíkar “týpur” og það sama gildir um strákana sem við löðumst að. Sumir eru hálfgerðar stereótýpur og líklegast erum við sjálfar það líka flestar þó við sjáum það aldrei sjálfar.
Hér eru fjórar skemmtilegar týpur, helstu einkenni þeirra og svo leiðbeiningar um hvernig þú nærð í þær.
1. SKÁLDIÐ
SÉRKENNI Svört föt, lopapeysur, niðurmjóar rauðar gallabuxur.
Hann gleymir sér oft, er viðutan og sést á hlaupum eftir strætó. Hann er alltaf með bók á sér og tekur hana fram á kaffihúsum, gjarnan bók um líf annarra skálda. Ekki vera hissa þó hann láti sér allt í einu vaxa yfirvaraskegg eða taki upp á öðrum spjátrungshætti.
ÁHUGAMÁL Bækur, ljóð og tónlist, umhverfisvernd, mannréttindi og friður á jörð.
STARF Skáldin eru oft eilífðarstúdentar – hann er semsé í námi.
EINKUNNARORÐ Kapítalisminn er að ganga af heiminum dauðum. eða Það er ekki hægt að læra list í listaskóla.
HVAR ER HANN AÐ FINNA Á litlum kaffihúsum, á fyrirlestrum, í kröfugöngum og á tónleikum með skrítnum böndum.
UMRÆÐUEFNI Heimspeki, stjórnmál, japanskar, kínverskar og franskar kvikmyndir.
Svona nærðu í hann
Sýndu honum að þú hafir líka áhuga á hámenningu. Ef þér finnst ekki spennandi að kryfja ljóð, kvikmyndir eða bækur ofan í kjölinn ættirðu kannski að róa á önnur mið, því þetta eru hans einu einlægu og brennandi áhugamál.
Svona heldurðu í hann
Reyndu aldrei að ýta á hann að fara nú að koma sér á lappir. Skáldið kærir sig ekki um annríki og amstur. Styddu hann frekar í því að sinna sínum hugðarefnum.
2. JAKKAFATAGAURINN
SÉRKENNI Jakkaföt, nýstraujuð skyrta og oftast bindi. Þegar hann ætlar sér að vera kúl er hann í peysu og bindislaus. Hann er alltaf í vinnunni og því er fartölva staðalbúnaður í lúkkinu. Hann á líka alltaf nýjasta símann, helst þann dýrasta.
ÁHUGAMÁL Stjórnmál, hagfræði og íþróttir. Hann getur hæglega breyst í fótboltaáhugamann um helgar.
STARF Hann er pottþétt í starfi þar sem hann situr við tölvu og fer á marga fundi. Hann helgar sig starfinu og það skaltu gera þér ljóst ef þú ert kona með sterka höfnunarkennd.
EINKUNNARORÐ Ég hef ekki tíma, ég er að vinna.
HVAR ER HANN AÐ FINNA Á fundum, þingum, í vinnuteitum og á heitustu börunum. Þú gætir líka hitt hann í flugvél þar sem hann situr á Saga Class með tölvuna fyrir framan sig.
UMRÆÐUEFNI Hann fylgist með því sem er að gerast í heiminum. Þess vegna getur hann talað um næstum hvað sem er, sérstaklega stjórnmál og efnahagsstöðuna. Ekki samt reyna að tala um listir við hann, þá er líklegt að hann sé ekki beint á heimavelli.
Svona nærðu í hann
Komdu honum á óvart með vitneskju þinni um menn og málefni. Sýndu að þú ert metnaðargjörn og ekki væri úr vegi að fá sér Chanel dragt (getur keypt hana vintage á netinu).
Svona heldurðu í hann
Vertu alltaf tipptopp til fara og hugsaðu vel um útlitið. Hann kann vel að meta kvenlega umhyggju þótt hann vilji ekki viðurkenna það, svo þú mátt vera góð við hann en ekki láta eins og þú sért mamma hans.
3. TÓNLISTARMAÐURINN
SÉRKENNI Hans sérkenni eru fyrst og fremst þau að rogast um bæinn með hljóðfæri og stór heyrnartól á eyrunum. Hann á það til að tromma með fingrunum og hann á aldrei peninga, þess vegna stundar hann ódýru barina og kaffihúsin.
ÁHUGAMÁL Tónleikar, tattú, teiti og kvenfólk.
STARF Hann dreymir um að geta lifað af tónlistinni og starfar stundum sem aðstoðarkennari, eða eitthvað svipað. Hann dreymir um sitt eigið sérstaka sánd en spilar á litlum stöðum. Hann þénar ágætlega í syrpum og eyðir öllum peningunum í eitthvað tónlistartengt.
EINKUNNARORÐ Hlustaðu á þennan gítar/bassa!
HVAR ER HANN AÐ FINNA Í plötubúðum og stundum á fornsölum. Einnig á furðulegum börum að spila með bandi sem þú hefur aldrei heyrt minnst á.
UMRÆÐUEFNI Þú kemst varla hjá því að ræða tónlist við hann en ef þú ert ekki vel heima í henni geturðu spurt hann tónlistarspurninga. Þegar hann er kominn í stuð er hægt að sveigja samræðurnar á aðrar brautir.
Svona nærðu í hann
Kauptu bjór handa honum og mættu þar sem hann er að spila. Mundu að fela langflesta geisladiskana þína áður en hann kemur í heimsókn.
Svona heldurðu í hann
Með því að vera í tónlistarbransanum eða vera menningarleg – sameiginleg áhugamál skipta hann miklu máli.
4. LÍKAMSRÆKTARKAPPINN
SÉRKENNI Þessi þekkist á göngulaginu og handleggjunum, sem eru eins og á górillu. Hann er alltaf brúnn og með sólgleraugu í geluðu hárinu.
ÁHUGAMÁL Próteinneysla, matur, vaxtarrækt og teknóteiti. Draumastarfið er að vera einkaþjálfari en hann gæti líka verið dyravörður eða iðnaðarmaður.
EINKUNNARORÐ Koma svo, 10 í viðbót! Ertu kelling?!
HVAR ER HANN AÐ FINNA Á vaxtarræktarstöðum og skemmtistöðum – þar sem er mikið af speglum.
UMRÆÐUEFNI Hann sjálfur. Helst eitthvað jákvætt um hann og vöðvana hans, bílinn hans og græjurnar.
Svona nærðu í hann
Það kemur alveg af sjálfu sér ef þú heldur áfram að tala við hann um uppáhaldsumræðuefnið. Mundu svo að vera alltaf þokkalega brún og í þröngum fatnaði.
Svona heldurðu í hann
Hann leggur mjög mikið upp úr því að þú sért líka í vaxtarrækt og hugsir vel um líkamann. Ef þið náið saman á þeim grundvelli, er ekkert mál að halda í hann.
Vonandi gengur þetta vel… mundu líka að það er alltaf hægt að prófa aðra týpu ef þér finnst jakkafatagaurinn, skáldið, líkamsræktartýpan eða tónlistarmaðurinn ekki nógu skemmtilegur.
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.