Að vera í sambandi er vinna, það er ekki dans á rósum, hjá öllum koma upp vandamál og stundum finnst okkur þau óyfirstíganleg og svo erfið að þau heltaka huga okkar.
EN það er oft hægt að leysa erfiðustu vandamál með auðveldari hætti en þú heldur. Tökum dæmi:
Þú og kærastinn eruð ósammála um margt og búin að venja ykkur á samskiptamynstur sem einkennast af rifrildum og særindum yfir öllu og engu. Hvorugt ykkar vill gefa sig og sættast á skoðun hins og þið virðist ætla halda þessum leiðindum og kíting áfram endalaust. Hvað er til ráða?
Sleppið tökunum á vandamálinu!
Ímyndaðu þér að þú setjir vandamálið ofan í poka sem þú hendir í ruslið eða kistu sem hægt er að læsa, það er að segja ef þú treystir þér ekki til að sleppa þessu vandmáli algjörlega og heldur að þú þurfir að ná í það seinna.
Hegðaðu þér nú samkvæmt því að þetta vandamál sé ekki lengur til. Það getur verið erfitt í fyrstu þar sem kærasti þinn veit ekki að þú sért búin að afskrifa vandamálið. Það sem þú gerir er að koma fram við kærasta þinn eins og vandamálið sé ekki til staðar. Vertu við hann eins og þú vildir óska að hann væri við þig, sýndu honum ástúð, hlýju, skilning og hvatningu. Slepptu því að gagnrýna hann og kvarta, byrjaðu á einum degi ef það er erfitt, taktu svo einn dag í einu þar sem bannað er að gagnrýna, kvarta og kveina og reyndu frekar að sjá það góða í honum og hrósa þegar þú getur.
Ef samskipti ykkar hafa verið neikvæð lengi þá mun þetta koma honum á óvart. Hann heldur kanski áfram að kvarta og rífast en þá er mikilvægt að þú takir ekki þátt í því. Þú þarft ekki að samþykkja það sem hann segir þegar þú ert ósammála en segðu “kannski” eða “það getur vel verið”. Ef það dugar ekki segir þú bara að þú hafir ekki áhuga að ræða þetta, viljir bara leggja þetta á ís.
Af eigin reynslu þá hefur þetta umbreytt samskiptum í mínu sambandi algjörlega. Við erum núna eins og nýástfangnir unglingar aftur og vandamálið leystist af sjálfu sér.
Með breyttri hegðan og jákvæðara viðmóti fengum við viljann til að leysa vandamálin og komast til móts við hvort annað.
Orsök og afleiðing haldast nefnilega oft í hendur. Ef samskiptin eru neikvæð, erfið og leiðinleg þá finnur maður ekki hjá sér viljan til að koma til móts við hinn aðilann en ef samskiptin eru góð vill maður gera allt til að þau haldist þannig.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.